Samtök atvinnulífsins tóku saman skýrslu um skattstofna atvinnulífsins og gáfu út í nóvember 2012 og má finna á vef þeirra. Skýrsluna kalla SA því ágæta nafni Ræktun eða rányrkja og má nálgast hér.

Skýrslan fjallar um breytingar á skattkerfinu frá 2008 og til útgáfudags og hversu skaðleg áhrif margra þessara breytinga hafi haft og muni hafa, en í inngangsorðum skýrslunnar segir m.a.:

Það er mikilvægt fyrir þjóðina að rekstur hins opinbera sé hagkvæmur. Skattheimtu er ekki hægt að þenja út fyrir tiltekin mörk án þess að hún rýri sjálfa skattstofnana. Forsendur varanlegrar tekjuaukningar ríkissjóðs eru auknar fjárfestingar sem leiða til aukinnar verðmætasköpunar og fjölgunar starfa þannig að fleiri fyrirtæki og einstaklingar greiði skatta en færri þiggi bætur og styrki.

Skattalegt umhverfi í landinu á að miða að því að ná fram sem mestri hagkvæmni. Skattkerfið á fyrst og fremst að vera skilvirkt tekjuöflunartæki ríkissjóðs og sveitarfélaga. Það á að vera gegnsætt og laust við flækjur, skattstofnar eiga að vera breiðir og skattprósentur fáar og lágar. Með því móti er dregið úr hvata til undanskota. Markmiðum um jafnari tekjuskiptingu verður best náð með aðgerðum á útgjaldahlið. Þannig fæst m.a. skýrari mynd af kostnaði við tekjujöfnun. Þetta er niðurstaða alþjóðastofnana á borð við OECD og AGS og var mjög vel lýst í skýrslu skattasérfræðinga AGS um skattkerfið á Íslandi í júní 2010.