Á stjórnarfundi Samtaka skattgreiðenda í dag, 25. júlí 2012, var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Ríkisskattstjóri brýtur trúnað

Samtök skattgreiðenda mótmæla því að Ríkisskattstjóri skuli birta sérstaklega og senda fjölmiðlum lista yfir þá 50 einstaklinga sem bera hæsta álagninu opinberra gjalda fyrir árið 2011.

Tekjur og skattar einstaklinga eru trúnaðarmál og trúnaður  á að ríkja milli framteljanda og skattayfirvalda. Sérstakt er að Persónuvernd skuli ekki mótmæla þessu trúnaðarbroti  opinberrar stofnunar. Um tímabundna framlagningu álagningaskrár gildir það sama. Engum ber sérstakur réttur til að hnýsast í  álagningu annarra en sinnar eigin.

Að þessu sinni gengur Ríkisskattstjóri lengra en nokkru sinni fyrr. Nú er sendur út listi til fjölmiðla þar sem  taldir eru upp þeir 50 einstaklingar sem hæsta álagningu bera og tiltekið heimilisfang þeirra og kennitala. Er það ósmekklegt og getur beinlínis  ógnað öryggi viðkomandi. Og ekki bætir úr skák að Ríkisskattstjóri sendir frá sér rangan lista í upphafi.  Er embættinu sýnilega ekki einu sinni treystandi til að senda frá sér réttar upplýsingar.

Listi eins og sá sem Ríkisskattstjóri sendir frá sér er aðeins til þess fallinn að ala á öfund og illmælgi í garð þess hóps skattgreiðenda sem mest greiða  til samfélagsins. Þakka ber framlag þessara einstaklinga í stað þess að hegna þeim með þeirri óumbeðnu athygli sem að þeim er beint.

Ef álögð gjöld á einstaklinga teljast ekki einkamál og trúnaðar ekki beri að gæta trúnaðar um meðferð þeirra hlýtur að mega spyrja hvers vegna hið opinbera birtir ekki lista yfir þá einstaklinga sem hæstar greiðslur hafa þegið frá hinu opinbera. Þannig yrði öllum opinn aðgangur að skrá yfir bótaþega hins opinbera og Tryggingastofnun gæti jafnframt  sent  fjölmiðlum lista yfir 50 hæstu bótaþegana hvers árs.

Stjórn Samtaka skattgreiðenda