Sigurður Már Jónsson, blaðamaður, skrifaði þessa grein á mbl.is þann 22. október sl. Hann er ekki einn um það að hafa áhyggjur af skuldsetningu ríkis og sveitarfélaga, en víkur hér einnig að umræðu um stjórnarskrá. En í tillögum stjórnlagaráðs er ríkinu engin takmörk sett í hallarekstri og skuldsetningu en margar greinar sem skuldbinda ríkið um stórkostlega útgjöld. En látum Sigurð tala:

„Þeir finnast sem töldu það verðskulda svo sem eina spurningu í kosningu um stjórnarskrá að víkja að rekstri ríkissjóðs. Þá hugsanlega með það í huga að vernda almenning fyrir miskunnarlausri skattaáþján samfara gengdarlausri skuldasöfnun og hallarekstri hins opinbera. Nokkuð sem við sjáum glögglega eiga sér stað í dag. Engum blöðum er um það að fletta að mesta áhyggjuefnið er hvernig skuldir hafa hlaðist upp hjá ríkssjóði samhliða umtalsverðum skattahækkunum. Þegar síðasta áfall dundi yfir kom það okkur til góða að ríkissjóður var hallalaus. Nú getur hann ekki þolað nein áföll. Því miður er það svo að einkaskuldir hafa breyst í opinberar skuldir þrátt fyrir fyrirheit um annað.

 

Sigurður Már Jónsson

Margir stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafa undanfarið haldið því fram að kreppan sem hófst 2008 sé liðin hjá. Þeir eru hins vegar fjölmargir sem halda því fram að bólan hafi í raun ekki sprungið, heldur hafi hún aðeins færst til. Þetta hafi gerst með hækkandi skuldsetningu ríkja samhliða björgun banka. Ísland í dag er skýrt dæmi um þetta. Margt í skuldastöðu hins opinbera hlýtur að vekja áhyggjur.

Lánshæfismatsfyrirtækin með viðvaranir

Fyrir skömmu upplýstist að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs mun lækka í bókum lánshæfismatsfyrirtækisins Standard & Poor´s (S&P) og fara niður í spákaupmennskuflokk ef skuldir hins opinbera aukast. Að mati S&P gæti það gerst í kjölfar óhagstæðrar niðurstöðu Icesave málaferlanna eða ef kostnaður vegna endurreisnar fjármálakerfisins þ.m.t. Íbúðalánasjóðs fari úr böndunum, en S&P telur ljóst að ríkið þurfi að setja aukið fé inn í Íbúðarlánasjóð sem þegar er búin að fá 30 milljarða framlag frá ríkissjóði. Þá hefur S&P einnig áhyggjur af veikingu krónunnar í kjölfar haftaafléttingar en slíkt myndi hindra efnahagsbatann, stöðva vöxt innlendrar eftirspurnar og verða til þess að vanskil myndu aukast í bönkunum. Þetta er í samræmi við álit annarra matsfyrirtækja.

Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs hefur um skeið verið á stöðugum horfum, hjá bæði S&P og Fitch Ratings. Moody´s er eina matsfyrirtækið sem er með lánshæfismat ríkissjóðs á neikvæðum horfum, en lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs hjá fyrirtækinu fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri og erlendri mynt eru Baa3 og P-3 fyrir skammtímaskuldbindingar. Allt hefur þetta áhrif til þess að ríkissjóður sæki ekki svo glatt lánsfé á skaplegum kjörum.

Ólíklegt að skuldir verði greiddar niður

Ekkert bendir til þess að ríkissjóður geti farið að greiða niður skuldir á næstunni eins og einstaka greiningaraðilar hafa verið að gæla við. Ekki nema þá með sölu á eignum en ekkert hefur verið upplýst um hvernig því verður háttað. Pólitísk stemmning fyrir slíku virðist ekki mikil.

Ein af hverjum sex krónum sem fóru úr ríkiskassanum á fyrri hluta ársins voru notuð til að þjónusta lán. Því miður virðist ríkissjóður vera að festast í eftirhrunsstöðu sem felur í sér að stöðugt hallar undan fæti. Þó að skuldir margra ríkja séu meiri en skuldir Íslands þá skapar gjaldmiðillinn og uppgjör bankahrunsins mikla óvissu sem mun hafa áhrif á greiðslugetu  ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðlum.

Vandanum vísað á næstu ríkisstjórn

Gert er ráð fyrir að verulegur halli verði á ríkissjóði á árinu 2012, eða um 21 milljarðar króna og handbært fé frá rekstri verði neikvætt um 42 milljarða króna. Stefnt var að því samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 að frumjöfnuður ársins verði jákvæður, sem er mikilvægt skref í átt til sjálfbærra ríkisfjármála, þótt frumjöfnuðurinn dugi ekki enn fyrir nettó fjármagnsgjöldum eins og greiningardeild Arion banka benti á nýlega. Kosningafjárlög eru framundan og ekki verður séð að ríkisstjórnin ætli að hefja aðlögun útgjalda að tekjum. Líklega er hugmyndin sú að láta næstu ríkisstjórn glíma við slíkt. Það þarf ekki að taka fram hve miklu skiptir að safna afgangi af ríkisrekstrinum sem fyrst og greiða niður skuldir; annars er hætta á að vaxtagreiðslurnar haldi áfram vaxa, éti upp stóran hluta ríkisútgjaldanna og þau verði á endanum ósjálfbær. “