Vefþjóðviljinn (www.andriki.is) fjallar hér aðeins um talnaleik félagsfræðiprófessorsins Stefáns Ólafssonar. Stefán hefur verið duglegur við að reyna að sannfæra Íslendinga um að Íslendingum eigi að líða betur yfir tekjusamdrætti og aukinn skattheimtu þar sem hinir tekjuhærri hafi orðið fyrir meiri tekjusamdrætti en aðrir. En eins og venjulega þegar Stefán Ólafssonar fer með tölur þá er ástæða til að staldra við og skoða betur forsendur og niðurstöður:

Laugardagur 21. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 203. tbl. 16. árg.

Í nýrri grein á Eyjunni sem ber yfirskriftina „Skattbyrði ríka fólksins – fyrir og eftir hrun“ sýnir Stefán Ólafsson prófessor grafið hér að neðan og segir það til marks um raunverulegar skattgreiðslur ríkasta fólksins fyrir og eftir hrun.

Við þetta er ýmislegt að athuga. Hér ægir saman launatekjum og alls kyns fjármagnstekjum; vaxtatekjum, húsaleigutekjum, arðgreiðslum. Vextir voru mjög háir og aðrar fjármagnstekjur einnig á árunum fyrir 2008. Það er megin skýringin á því hve hratt skattbyrðin lækkar á þeim árum, því rétt eins og nú greiða einstaklingar lægra skatthlutfall af fjármagnstekjum en launatekjum þótt í tilfelli arðs hafi fyrirtækin einnig greitt tekjuskatt áður en arður er greiddur út.

Þessi þróun hafði þegar snúist við áður en vinstri stjórnin tók við völdum 2009. Það skýrist án efa að mestu af lækkandi fjármagnstekjum en ekki stjórnarskiptunum.

Í grein Stefáns vantar einnig sárlega upplýsingar um hvað þessar skattgreiðslur hinna ríkustu skila ríkinu í heild? Eru 17% 2007 minni en 31% árið 2010%? Ef marka má tölur úr Tíund fyrr á árinu greiddu hinir tekjuhæstu færri krónur í skatt árið 2010 en 2007. Telur Stefán Ólafsson það ánægjuefni fyrir ríkissjóð að færri krónur skili sér?

Slíkur fögnuður virðist á sama misskilningi byggður og þegar prófessorinn taldi það ánægjulegt að kjör hinna fátækustu höfðu rýrnað því tekjur hinna ríkustu hefðu dregist meira saman. Má þó öllum vera ljóst að mann með 200 þúsund krónur í laun getur munað meira um 20 þúsund króna tap (10%) en mann með 2 milljónir um 500 þúsund króna tap (25%). Annar þarf að skera niður við sig í mat og öðrum lífsnauðsynjum en hinn að fresta bílakaupum, ferðalögum og fjárfestingum.

Í sögulegu yfirliti á skattbyrði einstakra hópa er einnig rétt að hafa hugfast að hinir ríkustu eru ekki alltaf þeir sömu. Fólk flyst á milli tekjuhópa. Tekjur listamanna og íþróttamanna geta til að mynda rokkað mjög mikið. Tónsmíðar, bókarskrif og strangar íþróttaæfingar skila skyndilega miklum tekjum eftir margra ára streð á lágum launum. Há skatthlutföll eru þessu fólki sérlega óhagstæð.

Stefán kallar tekjuhæsta hópinn hverju sinn ríkasta fólkið. En oft þurfa menn að efna til mikilla skulda til að hafa miklar tekjur. Í tekjuhæsta hópnum getur því hæglega leynst eignalaust og stórskuldugt fólk. Er það Stefáni virkilega fagnaðarefni að skattbyrði slíkra skuldugra heimila hafi aukist?