Í frétt í Viðskiptablaðinu kemur fram að í fjárhagsáætlun 2014 fyrir Vestmannaeyjabæ sé gert ráð fyrir lækkun útsvars í 13,98%. Er þetta annað sveitarfélagið sem tilkynnir lækkun útsvars nú síðustu daga. Í nýlegri úttekt Viðskiptablaðsins kemur jafnframt fram að undanfarin ár hafi fjárhagsstaða margra sveitarfélaga batnað verulega og er ánægjulegt að sum þeirra nýta nú aukið svigrúm til að lækka skatta á þessu kjörtímabili.

Reykjavíkurborg, sem helst ætti að njóta stærðarhagkvæmni, hefur hins vegar hækkað skatta og gjöld verulega á kjörtímabilinu og skýtur þar skökku við. Þá hefur það sveitarfélag sem helst hefur verið litið til sem fyrirmyndar í rekstri og skattaálögum, Seltjarnarnes, einnig hækkað útsvar á kjörtímabilinu, þó ekki sé í takt við Reykjavíkurborg.

Mikilvægt er að á næstunni standi ríkisstjórnin við þá ætlun sína að afnema lægri mörk útsvars og fasteignaskatta og jafnframt sjá til þess að jöfnunarsjóður sveitarfélaga refsi ekki þeim sveitarfélögum sem taka til í rekstri sínum og veita skattgreiðendum hlutdeild í betri afkomu.