Samtök skattgreiðenda hafa boðað til blaðamannafundar þar sem vakin verður athygli á átaki sem hefst þann 1. mars og í fréttatilkynningunni sagði m.a.:

„Um 15.000 glasamottum verður dreift á veitinga- og skemmtistaði í Reykjavík og nágrenni og á nokkrum stöðum úti á landi. Glasamotturnar vekja athygli á hárri skattlagningu hins opinbera á bjór. Þá verður þess einnig minnst að 25 ár eru liðin frá afnámi banns við sölu bjórs á Íslandi.

Með þessu átaki er ekki aðeins ætlunin að vekja athygli á þeirri staðreynd að ríkið tekur til sín að meðaltali 75% af smásöluverði bjórs sem seldur er í verslunum ÁTVR og í kringum 50% af smásöluverði á veitingahúsum. Markmiðið er líka að vekja athygli á tilraun hins opinbera til að stjórna neyslu og lífsstíl fólks með skattlagningu, regluverki, innflutnings- höftum o.s.frv. Stjórnmálamenn, embættismenn og sérfræðingar á vegum hins opinbera geta ekki metið hvað einstaklingnum er fyrir bestu hverju sinni og þaðan af síður hvað veitir honum ánægju og lífsfyllingu.

Samtök skattgreiðenda opna sérstaka Facebook síðu um herferðina, þá verður sérstök umfjöllun á heimsíðunni skattgreidendur.is og ný undirsíða þar sem hægt er að senda þingmönnum ósk um lækkun á áfengisgjaldi af bjór og minni afskiptum af neyslu og lífsstíl fólks; www.bjormottan.is. Á Twitter má fylgjast með fréttum af gangi mála undir @bjormottan og er fólk hvatt til að taka þátt í umræðu á netinu undir #bjormottan.”

Sjá einnig upplýsingar á síðu átaksins.