Enn einu sinni er það að koma í ljós hversu skammsýnir atvinnurekendur eru þegar kemur að hagsmunum þeirra sjálfra. Vilhjálmur Árnason og fleiri þingmenn hafa lagt fram frumvarp til laga sem leggur niður einkasölu ÁTVR á áfengi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að heimilt verði að selja áfengi í t.d. matvöruverslunum með ákveðnum skilyrðum og stuðla þannig að auknu frelsi í verslun, betra aðgengi neytenda að vörunni, og ýmsum öðrum jákvæðum hliðarverkunum sem vel eru tíundaðir í greinargerð með frumvarpinu.
Borist hafa nokkrar umsagnir um frumvarpið og eins og búast má við þegar rætt er um áfengi mótmæla Landlæknir, Barnarverndarstofa, IOGT o.fl. þessari breytingu og þá á grundvelli aukins aðgengis sem allir fullyrða að muni auka neysluna. Rannsóknir sem slíkar fullyrðingar styðja eru þó ekki tíundaðar til stuðnings. Og aldrei er á því tæpt að áfengi er auðvitað flestum gleðigjafi, meðan öðrum verður hált á svellinu.
Það er sérkennilegra að umsögn Félags atvinnurekenda (áður FÍS) er einnig neikvæð og tekur aðeins mið af skammtímahagsmunum þröngs hóps innan þess félags sem flytur inn áfengi og líkar vel náðarfaðmur ríkisins í þessum efnum, enda gott að sitja að kjötkötlunum. En sér ekki meirihluti félagsmanna þá miklu hagsmuni sem fólgnir eru í að koma ríkinu úr þessari verslun sem annarri? Eða hvers vegna ekki aftur Viðtækjaverslun ríkisins? Þessi eru lokaorð umsagnarinnar:
„Félagið leggur því ekki til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt, heldur að málið verði tekið upp að nýju í heild og horft til mun fleiri þátta en þegar þetta frumvarp var samið. Þá er þess farið á leit að sú endurskoðun verði unnin í samráði meðal annars við innflytjendur og framleiðendur áfengis, atvinnufyrirtæki sem eiga mikilvægra hagsmuna að gæta að ekki séu gerðar vanhugsaðar breytingar á starfsumhverfi þeirra. Það er hins vegar ljóst að til staðar er ómarkvisst og gerræðislegt bann við áfengisauglýsingum sem vert er að nema úr gildi nú þegar.”
Dapurt að sjá atvinnurekendasamtök berjast gegn auknu atvinnufrelsi. Hvernig á að taka mark á kröfum slíkra samtaka um frelsi á öðrum sviðum marktækar? Í þessu máli eiga hagsmunir almennings, neytenda, að ganga fyrir, og um leið hagsmunir atvinnurekenda – frelsi leiðir til jákvæðrar niðurstöðu til lengri tíma litið. Að einhverjir tilteknir framleiðendur eða innflytjendur muni þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum skiptir hér engu máli.
Hér má lesa umsögn Samtaka skattgreiðenda um frumvarpið.