Föstudaginn 24. október kl. 16 verður málstofa RNH um „Tekjudreifingu og skatta“ í fundarsal Gamma á jarðhæð við Garðastræti 37. Þar mun prófessor Corbett Grainger frá Wisconsin-háskóla í Madison bera saman tvær lausnir á fiskveiðivandanum, skattlagningu eða úthlutun afnotaréttinda, prófessor Ragnar Árnason greina ýmsar mælingaskekkjur og hugsanavillur um tekjudreifingu og skattbyrði og prófessor Hannes H. Gissurarson gagnrýna kenningar franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys um sífellt breiðara bil milli ríkra og fátækra.
Málstofan er haldin í tilefni af því, að komið er út hjá Almenna bókafélaginu greinasafnið Tekjudreifing og skattar, sem sex íslenskir fræðimenn skrifa í, Ragnar Árnason, Birgir Þór Runólfsson, Axel Hall, Helgi Tómasson, Hannes H. Gissurarson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Einn samstarfsaðili RNH, RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, styrkti útkomu bókarinnar. Málstofan er haldin í samstarfi við Samtök skattgreiðenda. Eftir fyrirlestra og umræður verður móttaka frá 17.30 til 19.
Allt áhugafólk um tekjudreifingu og skatta er hvatt til að mæta.