Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hefur samið við Hjallastefnuna um skólastarf í hreppnum og ráðið Margréti Pálu til eins árs sem skólastjóra. Sjá má frétt um þetta í Morgunblaðinu þann 16. júlí. Ástæða er til að fagna því að sveitarfélög leiti annarra lausna en eigin með rekstur skóla á skólaskyldustiginu.

Í Svíþjóð er stór hluti skóla á skólaskyldualdri einkarekinn og hvetur hið opinbera eindregið til slíkra lausna. Slíkir skólar fá sambærileg framlög frá hinu opinbera og ríkisreknu skólarnir og mega hvorki taka skólagjöld né forgangsraða við skráningu nemenda. En einkareknu skólarnir skila margir hverjir ágætum hagnaði og stuðla að framþróun og samkeppni í námi og námsaðferðum. Eitt þessara einkareknu fyrirtækja í skólarekstri í Svíþjóð er Kunskapsskolan, sem lesa má um hér.

Kostnaður við skólaskyldustigið á Íslandi er verulega hátt í samanburði við önnur OECD lönd samkvæmt nýlegri skýrslu. Og ekki verður séð beint samhengi á milli aukins kostnaðar og árangurs í námi. Sjálfsagt er því fyrir sveitarfélög að skoða með hvaða hætti best verður fyrir komið með tilliti til kostnaðar og árangurs, og þá ekki síður að skoða hvernig auka megi framþróun í námsaðferðum og samkeppni í skólastarfi nemendum til heilla.