Sigríður Andersen, lögmaður, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, 27. október, um áhrif jaðarskatta á hvata fólks til vinnu. Greinin er endurbirt hér í heild sinni:
„Á dögunum setti ég fram tvö dæmi hér í Morgunblaðinu um hvað stendur eftir þegar menn bæta við sig 10 þúsund króna tekjum með útseldri vinnu. Í vissum tilvikum getur það farið allt niður í 2.549 krónur sem menn fá í vasann. Hin 7.451 krónan fer í virðisaukaskatt, tryggingagjald, iðgjöld í sameignarsjóð, tekjuskatt og bótaskerðingu. Þetta óæskilega samspil skatta- og bótakerfa hefur stundum verið nefnt jaðaráhrif. Jaðaráhrifin koma fram á viðbótartekjur manna eftir að persónuafsláttur hefur verið fullnýttur og tekjur eru orðnar nægar til að skerða barna- og vaxtabætur.
Ég fékk mikil viðbrögð við þessum dæmum og jafnvel óskir um að reikna út fleiri tilvik. Nú er það út af fyrir sig áhyggjuefni þegar menn geta ekki með einföldum hætti áttað sig á raunverulegri skattheimtu og þar með raunverulegum tekjum sínum. Hið flókna kerfi sem við búum við í dag dregur bersýnlega úr tilfinningu manna fyrir kjörum sínum.
Auk dæmanna sem ég hef þegar nefnt má skoða aðstæður fólks með frekar lágar tekjur, til dæmis hjón með 200 þúsund króna tekjur hvort á mánuði. Þau hjón eru bæði í lægsta tekjuskattsþrepinu 37,2%. En ef annað þeirra bætir við sig vinnu á laugardegi, sem það innheimtir 10 þúsund krónur fyrir, er hugsanlegt að ráðstöfunartekjur þeirra hækki aðeins um 3.141 krónu. Fólk með tekjur í lægri kantinum lendir þarna í nær 70% skatti. Þessu hefði ég aldrei trúað nema með því að leggjast yfir skatta- og bótakerfið. Forsendur fyrir þessu má finna á vef mínum, www.sigridur.is, en einnig er rétt að benda á afar gagnlegar reiknivélar á vef ríkisskattstjóra þar sem menn geta séð áhrifin af hjúskaparstöðu, tekjum, eignum, skuldum, vaxtagjöldum og fjölskyldustærð á barna- og vaxtabætur. Í þessu kerfi er nefnilega búið að tengja marga þætti saman sem gerir það auðvitað mjög flókið.
Þessi flækja hefur versnað til muna á undanförnum árum með þrepaskiptingu tekjuskatts, að því ógleymdu að allir þeir skattar sem hér koma við sögu hafa hækkað og þar með þessi jaðaráhrif.
Það er alltaf þörf á nýjum störfum og verðmætasköpun í þjóðfélagi en sjaldan þó líkt og þegar efnahagsleg áföll hafa riðið yfir. Menn með nýjar hugmyndir verða að hafa svigrúm til að afla sjálfum sér og öðrum lífsviðurværis. Háu skattarnir bitna ekki aðeins á þeim sem fyrir þeim verða með beinum hætti heldur einnig hinum sem verða af nýjum tækifærum.
Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn gangi fúsir til verka þegar skattheimta keyrir úr hófi með þeim hætti sem þessi dæmi bera með sér. Jaðaráhrif skatta og skerðinga eru orðin nær óbærileg. Hárgreiðslukonan, forritarinn, endurskoðandinn, kvikmyndagerðarmaðurinn og löndunargengið verða að hafa sæmilega ástæðu til að halda áfram að sinna sínu.
Það gengur ekki að vinna fólks sé gerð að dýru jaðarsporti.”
Hér til hliðar á síðu Samtakanna má finna tengil á reiknivél skattstjóra og þannig sjá hversu þungt jaðarskattar vega miðað við mismunandi forsendur Sigríðar Andersen.