Tag: Sigríður Andersen

Breytingar á birtingu álagningaskrár?

Sigríður Á. Andersen og Birgir Ármannsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt. Breytingin tekur sérstaklega á birtingu álagningaskrár. Með þessu frumvarpi eru settar verulegar takmarkanir á birtingu skrárinnar og í frumvarpinu segir m.a.:

„Hverjum manni, átján ára eða eldri, skal veittur aðgangur að upplýsingum um allt að þrjá aðra gjaldendur úr hverri skattskrá. Skal ríkisskattstjóri halda skrá um þær óskir sem berast um aðgang samkvæmt þessari málsgrein, en honum er óheimilt að veita öðrum en skattrannsóknarstjóra aðgang að þeirri skrá. Skattrannsóknarstjóra er óheimilt að veita öðrum þær upplýsingar er hann fær samkvæmt þessari grein.
Óheimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta sem veittar eru skv. 3. mgr. án samþykkis hlutaðeigandi skattaðila. Ríkisskattstjóra, innheimtumönnum ríkissjóðs og ríkisendurskoðanda er óheimilt að veita persónugreinanlegar upplýsingar úr álagningarskrá og skattskrá, í heild eða hluta, umfram það sem skýr lagaákvæði heimila.”

Með þessu er ekki verið að stöðva að fullu aðgang almennings að álagningaskránni, en því settar verulegar skorður. Þannig verður ekki hægt að gera sér að féþúfu birtingu upplýsinga úr skattskránni með þeim ósmekklega hætti sem gert hefur verið um langt árabil.

Í greinargerð frumvarpsins segir einnig m.a.:

„Fyrir utan þau mannréttindi sem einstaklingum eru tryggð í stjórnarskrá, um friðhelgi einkalífs, hafa einstaklingar af því margvíslegan ama að upplýsingar um laun þeirra séu birt opinberlega. Umfjöllun í fjölmiðlum um kjör nafngreindra einstaklinga vegur ekki aðeins að einkalífi viðkomandi heldur einnig allrar fjölskyldu hans og kann t.d. að ganga gegn hagsmunum sem börnum eru sérstaklega tryggðir með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. áskilnað sáttmálans um lagavernd gegn gerræðislegum afskiptum af einkalífi fjölskyldu barns. Þá er sala á upplýsingum úr álagningarskrá til fyrirtækja, sem hefur viðgengist um árabil, til þess fallin að draga mjög úr samningsstöðu launamanna við viðsemjendur sína er þeir skipta um vinnu. “

lesa áfram

Góður fyrirlestur Lawson

Fyrirlestur prófessor Robert Lawson um atvinnufrelsi mánudaginn 28. júlí var vel sóttur og aðeins fjallað um hann í kjölfarið. Þannig

Umfjöllun Viðskiptablaðsins

birti Viðskiptablaðið grein um fyrirlestur Lawson og Sigríður Andersen fjallaði um hann í pistli sínum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þessa umfjöllun má lesa með því að stækka myndir sem er að finna með þessum pistli.

Þá var fjallað um fyrirlesturinn heimasíðu RNH:

„Þau gögn, sem útvega má með víðtækum mælingum á atvinnufrelsi í 150 löndum og sambandi atvinnufrelsis við lífskjör og farsæld fólks í þessum löndum, styðja afdráttarlaust kenninguAdams Smiths: Auðlegð þjóðanna skapast við verkaskiptingu og frjáls viðskipti. Þegar menn keppa að eigin hag, vinna þeir um leið að almannahag, hvort sem þeir ætla sér það eða ekki. Þessu hélt bandaríski hagfræðiprófessorinn Robert Lawson, einn af höfundum árlegrar mælingar á atvinnufrelsi, index of economic freedom, fram í fyrirlestri á fjölmennum fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda mánudaginn 28. júlí 2014. Tilefni fundarins var, að hundrað ár eru liðin, frá því að heimsstyrjöldin fyrri skall á 28. júlí 1914, en þá riðaði til falls það skipulag, sem Adam Smith hafði mælt fyrir og skilgreint, heimskapítalisminn, kerfi verkaskiptingar og frjálsra viðskipta. En þrátt fyrir að heimskapítalisminn veiktist verulega í heimsstyrjöldunum tveimur og í heimskreppunni, stóð hann þessi áföll af sér og styrktist verulega síðustu áratugi 20. aldar.

Lawson skýrði, hvernig vísitala atvinnufrelsis væri sett saman, og brá upp nokkrum línuritum úr nýjustu mælingu atvinnufrelsis, sem gerð verður opinber haustið 2014. Þar er hagkerfum heims árið 2011 skipt í fjóra hluta eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er þar. Lífskjör — eins og þau mælast í vergri landsframleiðslu á mann — eru að meðaltali langbest í frjálsasta hlutanum og langlökust í ófrjálsasta hlutanum. Hið sama er að segja um lífskjör fátækustu eða tekjulægstu 10%: Þau eru þrátt fyrir allt langskást í frjálsasta hlutanum. Lífslíkur eru líka lengstar í frjálsasta hlutanum og hagvöxtur örastur. Sagan jafnt og reynslan sýndu, að hér væri ekki aðeins um að ræða fylgni, heldur líka orsakasamband: Þegar þjóðir verða

Grein Sigríðar Andersen

frjálsar, komast þær í álnir og geta fyrir vikið útrýmt margvíslegu böli, sem stafar af skorti lífsgæðanna. Lawson kvað áhyggjuefni, að atvinnufrelsi á Íslandi hefði minnkað verulega. Árið 2004 var íslenska hagkerfið hið frjálsasta á Norðurlöndum, en árið 2011 mældist það hið ófrjálsasta. Lawson benti á, að öll gögn um mælingu ársins 2013 á atvinnufrelsi árið 2010 væru aðgengileg á heimasíðu verkefnisins og að öll gögn um mælingu ársins 2014 á atvinnufrelsi árið 2011 yrðu sett þangað í haust. Fyrirlestur Lawsons var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.”

Loks fjallaði stutt blogg Skafta Harðarsonar á Eyjunni um fyrirlestur Lawson og leggur aðeins út frá mælingum á atvinnufrelsi þjóð heimsins.

lesa áfram

Vaxtahringekjur

Grein þessi eftir Arnar Sigurðsson, fjáfesti, birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2012. Grein sem vísað er til eftir Sigríði Andersen má finna á heimsíðu Sigríðar, www.sigridurandersen.is, en upphaflega birtust greinar hennar í Fréttablaðinu 8. nóvember og  13. nóvember. Grein Arnars er hér endurbirt með leyfi höfundar.

„Nýverið birti einn af frambærilegri frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Andersen, grein undir fyrirsögninni „Jóhönnulánin“ (http://www.sigridurandersen.is/site/?p=713). Sigríður bendir réttilega á þá hryggilegu staðreynd að þegar öllum mátti ljóst vera að framundan væri djúp verðleiðrétting á fasteignum og gengi krónunnar með tilheyrandi verðbólguskoti um mitt ár 2008 greip þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, til þess að auðvelda grunlausum að steypa sér í skuldafen hjá Íbúðalánasjóði. Því miður eru hins vegar fleiri sorglegar hliðar á inngripum stjórnmálamanna á fjármálamarkaði sem byggjast á „einföldum kosningaskilaboðum“ sem sneydd eru allri grunnhugsun. Ef vaxta- og húsaleigubætur gætu gengið upp í hagfræðilegum skilningi væri full ástæða til að taka upp Nóbelsverðlaun í greininni og veita þau fyrstu til Íslands.

Hér á landi er rekin hávaxtastefna sem ætlað hefur verið það vafasama hlutverk að halda aftur af kaupgleði almennings. Til að milda þá þensluskerðingu dælir hins vegar ríkið um þriðjungi vaxtakostnaðar heimilanna aftur til baka! Eftir sitja fyrirtækin í landinu með háa vaxtabyrði sem heldur aftur af atvinnuuppbyggingu. Til að fjármagna vaxtabæturnar gefur ríkið svo út skuldabréf sem aftur eykur eftirspurn eftir fjármagni sem einnig stuðlar að hærra vaxtastigi. Önnur vaxtahringekja fáránleikans eru s.k. húsaleigubætur. Eins og flestum ætti að vera ljóst ræðst húsaleiga af framboði og eftirspurn auk vaxtastigs. Húsaleigubætur gera ekkert annað en að valda aukinni eftirspurn í húsnæði og þar með hækkun á húsaleigu. Afleiðingin er að hinar rangnefndu „bætur“ renna til leigusala en ekki leigutaka eins og að var stefnt. Góður ásetningur stjórnmálamanna er ekki einungis til ófarnaðar fyrir þá sem njóta eiga því vaxtahringekjurnar eru jafnframt hrikalegur kostnaður fyrir skattgreiðendur.

Eins og margoft hefur verið bent á er Íbúðalánasjóður eins og sjálfsmorðssprengjuvesti á íslensku efnahagslífi. Sjóðurinn er afleitur valkostur fyrir lántakendur, með hæstu raunvexti á byggðu bóli og því algerlega óskiljanlegt hvers vegna starfseminni er haldið áfram. Þrátt fyrir vaxtaokrið hafa skattgreiðendur einnig þurft að leggja sjóðnum nú þegar til meðgjöf sem nemur andvirði útrásarhallarinnar Hörpu og furðuhljótt hefur verið um. Nú virðist hins vegar vanta vel á annað hundrað milljarða til að sjóðurinn geti staðið í skilum. Meðvirkir stjórnmálamenn allra flokka virðast ætla að taka á því vandamáli af svipaðri festu og skuldavanda Orkuveitunnar á sínum tíma og gott ef sumir myndu ekki bara vilja að sjóðurinn borgaði út arð til eiganda síns sem n.k. lýtaaðgerð á ríkisreikningnum að ekki sé nú minnst á þá hugmynd að hinn gjaldþrota sjóður geti greitt úr skuldavanda heimilanna!

Stundum er sagt að Íslendingar þurfi ráðamenn með kjark og þor til að taka á aðsteðjandi vanda. Engar slíkar forsendur þarf til að taka á vanda Íbúðalánasjóðs, einungis lítilsháttar skynsemi. Loka þarf sjóðnum í núverandi mynd með því að setja hann í hefðbundna slitameðferð eins og gert var með föllnu bankana. Nægt framboð er af lánsfé á almennum markaði auk þess sem ESA hefur nú þegar úrskurðað að núverandi rekstur sé skýrt samkeppnisbrot á fjármálamarkaði og að endurgreiða þyrfti frekari ríkisaðstoð við sjóðinn.”

 

lesa áfram

Hóf í skattheimtu

Sigríður Andersen, lögmaður, hefur mikið fjallað um skattamál í greinaskrifum sínum. Þessi grein, sem upphaflega birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2012, er gott innlegg í umræðuna um einfalt og gegnsætt skattkerfi svo og umfjöllun um skattahækkanir sem nú eru í bígerð á ferðaþjónustuna:

„Skattlagningu er ekki einvörðungu stillt í hóf með því að skatthlutföll séu lág, þótt það sé að sjálfsögðu nauðsynleg forsenda. Í hóflegri skattheimtu felst einnig að jafnræði sé með skattgreiðendum, þeir greiði sambærilega skatta af sambærilegum tekjum, neyslu eða starfsemi. Til að skattheimta teljist hófstillt þarf að lokum að gefa skattgreiðendum eðlilegt svigrúm til að laga sig að íþyngjandi breytingum. Stundum vegast á þessi tvö síðarnefndu sjónarmið um jafnræði og svigrúm. En þegar svigrúminu sleppir tekur jafnræðið við.

Nú virðast stjórnvöld vera að átta sig á því að misháir skattar eru ósanngjarnir. Veitingahús á hóteli innheimtir 7% virðisaukaskatt (vsk.) af ferðamönnum sem þar borða líkt og hótelið sjálft innheimtir í dag af gistingunni. Verslun á hótelinu sem nánast eingöngu selur ferðamönnum íslenskar lopapeysur og útskorna lunda þarf að leggja 25,5% vsk. ofan á vörurnar. Önnur verslun á sama stað sem selur sömu ferðamönnum bækur og blöð þarf hins vegar ekki að innheimta nema 7% vsk. ofan á sína sölu. Öll þessi fyrirtæki sinna ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti en með þeim er þó ekki jafnræði. Önnur dæmi má einnig nefna. Sá sem selur hljómdiska leggur 7% vsk. á sína verslun en sá sem selur mynddiska 25,5%.

Mikilvægt er að hafa í huga að jafnræði má ekki aðeins ná fram með því að hækka skatta á þá sem minnst greiða heldur – þingmenn, ekki hætta að lesa – einnig með því að lækka skattana á þá sem hæst greiða. Árið 2007 var 14% vsk. þrepið lagt niður og margt af því sem áður bar 14% vsk. fellt í 7% þrepið. Með því var ekki aðeins afnumið verulegt ójafnræði meðal skattgreiðenda í ákveðnum greinum, eftirminnilegar voru t.d. flóknar reglur um sölu veitinga og þjónustu á veitingahúsum, heldur var einfaldað til muna allt eftirlit með skattheimtunni. Þessi fækkun vsk. þrepanna árið 2007 var jákvætt skref sem slíkt þótt vissulega megi halda því fram að með breikkun bilsins á milli skattþrepanna sem eftir stóðu hafi ójafnræði aukist almennt.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar nú boðað að vsk. á gistingu hækki í 25,5%. Er um það vísað til þess að ósanngjarnt sé að þessi þáttur ferðaþjónustu beri ekki sama skatt og t.d. leiðsögn í rútu. Undir þetta sjónarmið ríkisstjórnarinnar má vissulega taka. En verða menn þá ekki að líta til allra annarra þátta ferðaþjónustunnar? Og af hverju að einskorða sig við ferðaþjónustuna? Stefnir ríkisstjórnin að frekari samræmingu virðisaukaskattsins? Það væri þá fagnaðarefni. Hins vegar, fyrir utan vankanta á tæknilegri útfærslu ríkisstjórnarinnar á þessari tilteknu skattahækkun, þá er það einfaldlega rangt að samræma allt á hinn versta veg. Það á að lækka hið almenna vsk. þrep úr 25,5% í t.d. 15% og hækka um leið 7% þrepið í það sama. Það er raunhæf tekjuöflun fyrir ríkissjóð og viðráðanleg skattbyrði sem hvetur ekki til undanskota. Í framhaldinu yrði það svo verðugt verkefni stjórnmálamanna að færa það skatthlutfall niður. Fátt kæmi ferðaþjónustunni betur. Og það sem mest er um vert er að jafnræði meðal allra skattgreiðenda verður ekki betur náð.”

lesa áfram

Vinna „dýrt jaðarsport”?

Sigríður Andersen, lögmaður, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, 27. október, um áhrif jaðarskatta á hvata fólks til vinnu. Greinin er endurbirt hér í heild sinni:

„Á dögunum setti ég fram tvö dæmi hér í Morgunblaðinu um hvað stendur eftir þegar menn bæta við sig 10 þúsund króna tekjum með útseldri vinnu. Í vissum tilvikum getur það farið allt niður í 2.549 krónur sem menn fá í vasann. Hin 7.451 krónan fer í virðisaukaskatt, tryggingagjald, iðgjöld í sameignarsjóð, tekjuskatt og bótaskerðingu. Þetta óæskilega samspil skatta- og bótakerfa hefur stundum verið nefnt jaðaráhrif. Jaðaráhrifin koma fram á viðbótartekjur manna eftir að persónuafsláttur hefur verið fullnýttur og tekjur eru orðnar nægar til að skerða barna- og vaxtabætur.

Ég fékk mikil viðbrögð við þessum dæmum og jafnvel óskir um að reikna út fleiri tilvik. Nú er það út af fyrir sig áhyggjuefni þegar menn geta ekki með einföldum hætti áttað sig á raunverulegri skattheimtu og þar með raunverulegum tekjum sínum. Hið flókna kerfi sem við búum við í dag dregur bersýnlega úr tilfinningu manna fyrir kjörum sínum.

Auk dæmanna sem ég hef þegar nefnt má skoða aðstæður fólks með frekar lágar tekjur, til dæmis hjón með 200 þúsund króna tekjur hvort á mánuði. Þau hjón eru bæði í lægsta tekjuskattsþrepinu 37,2%. En ef annað þeirra bætir við sig vinnu á laugardegi, sem það innheimtir 10 þúsund krónur fyrir, er hugsanlegt að ráðstöfunartekjur þeirra hækki aðeins um 3.141 krónu. Fólk með tekjur í lægri kantinum lendir þarna í nær 70% skatti. Þessu hefði ég aldrei trúað nema með því að leggjast yfir skatta- og bótakerfið. Forsendur fyrir þessu má finna á vef mínum, www.sigridur.is, en einnig er rétt að benda á afar gagnlegar reiknivélar á vef ríkisskattstjóra þar sem menn geta séð áhrifin af hjúskaparstöðu, tekjum, eignum, skuldum, vaxtagjöldum og fjölskyldustærð á barna- og vaxtabætur. Í þessu kerfi er nefnilega búið að tengja marga þætti saman sem gerir það auðvitað mjög flókið.

Þessi flækja hefur versnað til muna á undanförnum árum með þrepaskiptingu tekjuskatts, að því ógleymdu að allir þeir skattar sem hér koma við sögu hafa hækkað og þar með þessi jaðaráhrif.

Það er alltaf þörf á nýjum störfum og verðmætasköpun í þjóðfélagi en sjaldan þó líkt og þegar efnahagsleg áföll hafa riðið yfir. Menn með nýjar hugmyndir verða að hafa svigrúm til að afla sjálfum sér og öðrum lífsviðurværis. Háu skattarnir bitna ekki aðeins á þeim sem fyrir þeim verða með beinum hætti heldur einnig hinum sem verða af nýjum tækifærum.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn gangi fúsir til verka þegar skattheimta keyrir úr hófi með þeim hætti sem þessi dæmi bera með sér. Jaðaráhrif skatta og skerðinga eru orðin nær óbærileg. Hárgreiðslukonan, forritarinn, endurskoðandinn, kvikmyndagerðarmaðurinn og löndunargengið verða að hafa sæmilega ástæðu til að halda áfram að sinna sínu.

Það gengur ekki að vinna fólks sé gerð að dýru jaðarsporti.”

Hér til hliðar á síðu Samtakanna má finna tengil á reiknivél skattstjóra og þannig sjá hversu þungt jaðarskattar vega miðað við mismunandi forsendur Sigríðar Andersen.

lesa áfram

10.000 kall handa hverjum?

Frábæra umfjöllun og mynd er að finna á vef Sigríðar Andersen um nýja 10.000 króna seðilinn, en hún birti einnig grein í Morgunblaðinu í síðustu viku um málið

Á vef hennar  fer að finna þennan pistil samfara myndinni af seðlinum:

 

“Stjórnvöld hafa boðað útgáfu 10 þúsund króna seðils.

Hér eru tvö dæmi um að hvaða gerist þegar menn reyna að skapa verðmæti í þjóðfélaginu í dag og selja út vinnu sína fyrir 10 þúsund krónur.

Annars vegar er um að ræða heimili þar sem hjón hafa 400 þúsund krónur hvort í laun eða samtals 800 þúsund, eiga fjögur börn á heimili og skulda 20 milljónir króna vegna í húsnæðis. Þegar annað hjónanna selur vinnu sína fyrir 10 þúsund krónur til viðbótar er hirtur af fjárhæðinni virðisaukaskattur, tryggingagjald, iðgjöld í lífeyrissjóð, tekjuskattur (46,20%) og að lokum skerðast vaxta- og barnabætur um 15% af hinum auknu tekjum. Eftir stendur þá aðeins 2.941 króna.

Hins vegar er um að ræða eina fyrirvinnu með 950 þúsund krónur í heildartekjur en maki er alveg tekjulaus. Þau eiga einnig fjögur börn og skulda 20 milljónir króna vegna húsnæðis. Þegar fyrirvinnan selur vinnu sína fyrir 10 þúsund krónur til viðbótar er hirtur af fjárhæðinni virðisaukaskattur, tryggingagjald, iðgjöld í lífeyrissjóð, tekjuskattur (40,24%) og að lokum skerðast vaxta- og barnabætur um 15% af hinum auknu tekjum. Eftir standa þá aðeins2.549 krónur, líkt og sjá má á myndinni hér að ofan.

Forsendur fyrir þessum dæmum má finna hér.”

lesa áfram

top