Umfjöllun Morgunblaðsins

Ráðstefna Samtakanna um sænska valkortakerfið í grunnskólanum og stöðu sjálfstæðra skóla á Íslandi þótti takast mjög vel og miklar umræður urðu í lok ráðstefnunnar. Vonandi er að halda megi þessari umræðu í gangi. Ljóst virðist vera að kerfið hefur gefist vel í Svíþjóð og einnig í því bæjarfélagi á Íslandi, sem kemst næst því að vinna út frá sömu hugmynd, þ.e. að „fé fylgi barni”, en ekki skóla.

Eins og búast mátti við sýndi ríkisfjölmiðillinn ráðstefnunni lítinn áhuga, en Viðskiptablaðið tók viðtal við Odd Eiken og birti 22. nóvember. Morgunblaðið ræddi við Eiken og annan íslensku fyrirlesaranna, Sölva Sveinsson, og birti frétt 24. nóvember.

Samtökin hafa dreift ítarefni til ráðstefnugesta og er öllum velkomið að senda það öllum sem áhuga hafa. Vinsamlega sendið tölvupóst á uppl@skattgreidendur.is. Þá er sjálfsagt að flytja sveitarstjórnum eða öðrum áhugahópum upplýsingar um sænska valkortakerfið með fyrirlestri eða spjalli.

Fyrirlestrarnir eru einnig aðgengilegir á YouTube ásamt glærum sem þeim fylgdu.

Umfjöllun Viðskiptablaðsins

Umræðan um sænska valkortakerfið á mikið erindi við íslenskt samfélag. Gæði og kostnaður íslenska grunnskólans er ekki einkamál hins opinbera eða starfsmanna skólans.  Og opna þarf á umræðuna um nýjar hugmyndir. Sveitarstjórn Tálknafjarðar hefur samið við Hjallastefnuna um rekstur grunnskólans á staðnum í, að því er virðist, almennri sátt við kennara og foreldra, í tilraun til að bæta skólastarfið. En viðbrögð ráðuneytis og Kennarasambands Íslands vita ekki á gott, en gott svar ritstjóra Fréttablaðsins er rétt að vekja athygli á.

 

Vikulega birtir Viðskiptablaðið pistil undir nafni Týs og 22. nóvember fjallaði pistillinn um ráðstefnuna:

„Ávísun á gæði

Týr er nokkuð ánægður með framtak Samtaka skattgreiðenda sem á morgun munu standa fyrir málþingi um breytt rekstrarform grunnskóla. Odd Eiken  mun kynna kosti og galla hins svokallaða ávísunarkerfis, en hann var ráðuneytisstjóri sænska menntamála-ráðuneytisins þegar þess konar kerfi var innleitt þar í landi fyrir um 20 árum.

Týr á ekki von á því að vel verði tekið í slíkar hugmyndir hér á landi, og þá síst af þeim sem nú fara með völdin. Einkarekstur er skammaryrði í augum vinstri manna sem telja einhverra hluta vegna að allt sem viðkemur menntun, sem og heilbrigðisþjónustu, sé á hendi hins opinbera. Það má enginn „græða“ á því að mennta eða lækna.

Týr veit vel að hugmyndafræðilegur ágreiningur um kosti og galla einkareksturs verður ekki leystur í fljótu bragði. En Týr vill til gamans velta upp einni spurningu. Hvaða starfsstéttir þjóðfélagsins eru það sem kvarta hvað mest undan kjörum sínum? Hvaða starfsstéttir boða flest verkföll og standa oftast í stappi við vinnuveitanda sinn um kaup og kjör?

Fyrir utan starfsstéttir í opinberum heilbrigðisrekstri eru kennarar þar ofarlega á lista.

Það að kennari fari af launaskrá hjá  hinu opinbera yfir á launaskrá hjá  einkaaðila gerir viðkomandi ekki að  verri kennara. Íslendingar verja gífurlegu fjármagni úr vösum skattgreiðenda í menntun íslenskra ungmenna.  Hér minnir á að magn er ekki það sama og gæði enda sýna tölur að íslensk börn eru ekki betur menntuð en önnur börn í Evrópu.

Ávísunarkerfið er ekki óþekkt á Íslandi, enda var kerfið innleitt í Garðabæ í bæjarstjóratíð Ásdísar Höllu Bragadóttur fyrir rúmum áratug. Týr hefur ekki orðið var við annað en að Garðbæingar séu almennt ánægðir með kerfið, að hafa val fyrir börnin sín og geta um leið sett ákveðna kröfu á bæði kennara og skólastjórnendur um gæði.

Samkeppni er alltaf góð. Því er ekkert öðruvísi farið með menntun. Það á að vera markmið allra sem starfa í menntageiranum að vilja gera betur í dag en í gær. Til þess þarf hvatningu, nýja hugsun og framsækni. Ekkert af því er í boði hjá ríkinu. Þar er aðeins boðið upp á fastráðningu og taxtalaun óháð áhuga, getu eða dugnaði. Aðhaldið er ekkert, en kjarabaráttan heldur áfram.”