Gagnlegar upplýsingar um skatta

Á hverju ári gefur skatta- og lögfræðisvið KPMG út bækling um skatta, eða upplýsingar um skattmál einstaklinga og rekstraraðila. Hér má nálgast skattabæklinginn 2014.

Mikinn fróðleik er að finna í þessari tæplega 50 síðna handbók. Það er þarft verkað reyna að koma á framfæri upplýsingum úr skattalögum á skiljanlegu og einföldu máli.

Fleira fróðlegt lesefni er að finna á vef KPMG undir „Útgefið efni”, en gott dæmi um flækjustig íslenska skattkerfisins er bæklingur KPMG „Starfstengd hlunnindi og styrkir 2013″ – alls 32 blaðsíður.

lesa áfram

Ný bók um skatta og tekjudreifingu

Almenna bókafélagið hefur gefið út áhugaverða bók fyrir allt áhugafólk um skatta; Tekjudreifing og skattar. Bókin er gefin út að tilstuðlan og með tilstyrk RSE, Rannsóknarsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál.

Bókinni er skipt upp í þrjá hluta;

 • Hluti I – Tekjudreifing

Ragnar Árnason                    Ævitekjur og tekjudreifing

Birgir Þór Runólfsson           Fátæki í alþjóðlegum samanburði

Hannes H. Gissurarson         Fátækt á Íslandi 1991 – 2004

Helgi Tómasson                     Nokkur atriði um launadreifingar

 • Hluti II: Skattar og skattbyrði

Ragnar Árnason                    Raunveruleg skattbyrði

Axel Hall                                 Dansað á línunni

Axel Hall                                 Norrænt í báða enda?

 • Hluti III: Skattar og tekjujöfnun

Arnaldur S. Kristjánsson      Raunverulegur jaðarskattur og tekjudreifing

Ragnar Árnason                    Jöfnunaráhrif tekjuskatta

Bókin er góð lesning öllum þeim sem vilja taka þátt í vitrænni umræðu um skattamál og tekjudreifingu óháð því hver afstaðan er til þess hvert skattstigið skuli vera.

RNH, rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, heldur málst0fu 24. október nk. í samvinnu við Samtök skattgreiðenda um tekjudreifingu og skatta – nánari umfjöllun síðar.

 

lesa áfram

Snúið af leið ríkisafskipta og forsjárhyggju

Út er komin hjá Institute of Economic Affairs bókin A U-Turn on the Road to Serfdom. Bókin byggir annars vegar á fyrirlestri Grover Norquist (Hayek Memorial Lecture), sem hann flutti hjá IEA árið 2013 og hins vegar á þremur greinum sem tengjast beint fyrirlestrinum. Þá er að finna spurningar sem bornar voru fram í loks fyrirlestrarins og svör Grover Norquist við þeim.

Fyrirlestur Norquist nefndist; A U-turn on the road to serfdom: prospects for reducing the size of the state.013, og hins vegar á greinum sem leggja út af fyrirlestri hans. Grover Norquist er stofnandi samtakanna Americans for Tax Reform, eða ATR, sem er sterk hagsmunasamtök skattgreiðenda í Bandaríkjunum.

Aðrar greinar í bókinni eru The modern Leviathan state, its growth and consequences eftir David B. Smith, Taxpayers for discal decentralisation eftir Matthew Sinclair og loks Fostering a European “leave us alone” coalition eftir svíann Nima Sanandaji.

Bókina má fá ókeypis á pdf skjali á heimasíðu Institute of Economic Affairs.

 

lesa áfram

Sannleikurinn um ríkisfjármálin

Grein þessi eftir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, birtist upphaflega í Morgunblaðinu 14. desember 2012.
Fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra ritar reglulega greinar um það sem hann telur vera glæsilegan árangur í ríkisfjármálum. Nýjasta greinin í þessari röð birtist í Fréttablaðinu í fyrradag (12. des. 2012). Þar er sem fyrr miklast af árangri liðinna ára og eina ferðina enn boðuð „tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs“.

Sem betur fer þurfa landsmenn ekki að búa við túlkun Steingríms Sigfússonar á hagtölum um ríkisreksturinn. Þessi gögn liggja fyrir í greinargóðu formi í útgáfum og á heimasíðu Hagstofu Íslands. Væntanlega endurspegla þessi gögn þann veruleika sem Steingrímur biður um að í heiðri sé hafður í grein sinni. Hins vegar bregður svo við að sú saga sem þessi gögn segja er ekki í góðu samræmi við túlkun Steingríms.

Veruleikinn

Allan stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, frá 2009 og fram á þennan dag, hefur ríkissjóður verið rekinn með mjög miklum halla. Þessi ferill er rakinn í mynd 1 sem er meðfylgjandi. Þar kemur fram að fyrstu tvö stjórnarár ríkisstjórnarinnar, 2009 og 2010, var hallinn langt yfir 100 milljörðum hvort ár eða 8-9% af vergri landsframleiðslu (sbr. mynd 2). Öfugt við það sem Steingrímur gefur í skyn í línuritinu í grein sinni er það ekki svo að hallinn hafi minnkað á árinu 2010, fyrsta heila árinu í hans ráðherratíð. Þvert á móti hækkaði hann um 20 milljarða kr. eða um meira en 1% af vergri landsframleiðslu (VLF). Halli ríkissjóðs sem hlutfall af VLF óx sömuleiðis úr 8,3% í 9,4% (sbr. mynd 2).Frá árinu 2011 hefur hallinn vissulega farið lækkandi. Sú lækkun hefur hins vegar verið fjarska hægfara. Árið 2011 var hallinn á rekstri ríkissjóðs t.d. yfir 90 milljarðar kr. og næstum 6% af VLF (myndir 1 og 2). Jafnvel á yfirstandandi ári, fjórða árinu frá hruni, mælist hallinn fyrstu þrjá ársfjórðungana um 35 milljarðar kr. og stefnir í yfir 50 milljarða á árinu í heild eða um 3% af VLF.

Öfugt við það sem gefið er í skyn í grein Steingríms eru þessar hallatölur ríkissjóðs háar í samanburði við það sem tíðkast í öðrum Evrópuríkjum. Að meðaltali frá árinu 2009 til 2011 (eða áætlunar 2012) eru þær talsvert yfir meðallagi Evrópuríkjanna (OECD, Economic Outlook 2012). Það er heldur ekki rétt sem fullyrt er í grein Steingríms að „hvergi í okkar heimshluta þar sem ríkissjóðir hafi lent í vanda vegna efnahagskreppu [hafi] náðst viðlíka árangur síðastliðið ár eins og á Íslandi“. Samkvæmt hagtölum frá OECD (Economic Outlook 2012) mun t.d. afkoma ríkissjóðs Írlands batna mun meira frá 2011 til 2012 en ríkissjóðs Íslands. Allmörg önnur lönd eru talin munu ná „viðlíka“ árangri.

Leiktöld fjárlaga

Það er eftirtektarvert að frá árinu 2010 hafa fjárlög undantekningarlaust gert ráð fyrir miklu minni halla á rekstri ríkissjóðs en í raun hefur orðið. Þessu er lýst í mynd 1, þar sem halli á rekstri ríkissjóðs samkvæmt fjárlögunum er sýndur við hliðina á rauntölunum. Eins og sjá má er munurinn ærinn – hallinn er oft meiri en tvöföld áætlun fjárlaga – og skiptir tugum milljarða og nokkrum hundraðshlutum af VLF.Spurnin er hvað valdi. Nærtækt er að túlka þetta sem aðhaldsleysi í framkvæmd fjárlaga, sem er ekki í samræmi við þá mynd sem Steingrímur vil fá okkur til að trúa. Það er einnig hugsanlegt að þetta vanmat á hallanum sé gert viljandi til að blekkja löggjafann og almenna kjósendur. Hver sem ástæðan er má ljóst vera að svona mikil frávik eru stjórnarfarslega skaðleg og geta seint talist til fyrirmyndar í ríkisrekstri.

Hættulegur hallarekstur

Það sem af er stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, þ.e. frá árinu 2009 og út þriðja ársfjórðung 2012, nemur samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs mældur á verðlagi hvers árs um 400 milljörðum króna (Hagstofan, Þjóðhagsreikningar 2012:3 og 2012:15). Þessi uppsafnaði halli hefur eðli málsins samkvæmt bæst við mjög alvarlega skuldastöðu ríkissjóðs. Þróun hinnar hreinu skuldastöðu sem hlutfalls af VLF samkvæmt fyrrgreindum gögnum Hagstofunnar er nánar lýst í mynd 3. Eins og sjá má hefur skuldastaðan vaxið hröðum skrefum og nam í árslok 2011 yfir 55% af VLF. Vegna hallarekstrar ríkissjóðs á árinu 2012 hafa þessar skuldir enn aukist. Rétt er að taka það skýrt fram að í þessum tölum vantar ýmsar þekktar skuldbindingar ríkissjóðs, m.a. vegna lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ábyrgða á sjóðum og stofnunum, t.a.m. Íbúðalánasjóðs.Þessi mikla hækkun í hreinni skuldastöðu ríkissjóðs er mikið áhyggjuefni af a.m.k. þremur ástæðum.

Í fyrsta lagi fylgir henni vaxtakostnaður upp á tugi milljarða sem rýrir getu ríkissjóðs til að sinna mikilvægum málefnum samfélagsins, þar með töldum velferðarmálum í framtíðinni.

Í öðru lagi bætast hinar auknu ríkisskuldir ofan á mjög erfiða skuldastöðu þjóðarinnar í heild. Þær veikja lánstraust þjóðarinnar út á við og hækka þar með vaxtakröfuna á Ísland erlendis. Skuldasöfnun íslenska ríkisins er að áliti sérfræðinga ein af helstu ástæðunum fyrir því að alþjóðleg matsfyrirtæki hafa ekki fengist til að hækka mat sitt á lánshæfi Íslands og skuldatryggingarálagið á ríkissjóð erlendis hefur sorglega lítið lækkað.

Í þriðja lagi er þessi mikla skuldasöfnun ríkisins bein ógn við getu þjóðarinnar til að komast með sæmilega heilli há út úr þeirri fjárhagskreppu sem hún hefur verið í. Áætlun sú um endurreisn íslensks efnahags sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin komu sér saman um í nóvember 2008 byggðist á tveimur meginstoðum; (i) myndarlegum hagvexti og (ii) aðhaldi í ríkisrekstri og hallalausum ríkisrekstri innan fárra ára. Þetta var í áætluninni taldið forsenda fyrir því að Ísland kæmist út úr skuldakreppunni. Hagvöxtur hefur því miður reynst mun hægari en að var stefnt í þessari áætlun. Eins og rakið hefur verið hefur einnig verulega skort á að markmiðunum í ríkisfjármálum hafi verið náð.

Lokaorð

Hinn mikli hallarekstur ríkissjóðs undanfarin fjögur ár felur í sér verulega ógn við efnahagslega velferð íslensku þjóðarinnar á komandi árum. Framvinda frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2013 á Alþingi og reynslan af fjárlögum undanfarandi ár bendir því miður ekki til þess að nú séu að verða þau tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs sem Steingrímur Sigfússon hefur kynnt. Þvert á móti bendir allt til þess að þessi síðustu fjárlög núverandi ríkisstjórnar muni skerða enn frekar það svigrúm sem þjóðin hefur til að losa sig úr skuldafjötrum og skapa hér velferð á varanlegum grunni.

Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

lesa áfram

Háir skattar og skuldavandi heimilanna

Grein eftir Ragnar Árnason, prófessor, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2013:

Í dag, næstum fjórum og hálfu ári, eftir hið mikla áfall í fjármálakerfinu í október 2008, er fjöldi íslenskra heimila enn í alvarlegum skuldavanda. Lánaformum hefur verið kennt um þennan vanda; framan af einkum hinum svokölluðum myntkörfulánum og nú upp á síðkastið verðtryggðum lánum. Þetta eru nærtækar og ekki óeðlilegar skýringar. Fyrir liggur að gengi krónunnar féll verulega á árunum 2008 og 2009 og verðbólgan tók stökk upp á við. Hvort tveggja hlaut að valda umræddum heimilum verulegum búsifjum.

Gengislækkanir og verðbólga eru ekki nýnæmi

Á hinn bóginn má ekki gleyma því að gengislækkanir og verðbólga hafa verið landlæg fyrirbæri á Íslandi áratugum saman. Gengið hefur iðulega fallið meira og verðbólga verið hraðari á árum áður, jafnvel eftir að verðtrygging varð almenn. Eitt af mörgum dæmum um þetta eru árin rétt fyrir og um 1990 en þá var verðbólga miklu meiri en nú og gengið féll þá einnig mjög mikið. Þá kom hins vegar ekki upp svipaður skuldavandi heimila.

Því má ljóst vera að það hljóta að vera aðrir þættir en verð- eða gengistryggingin ein sem valda því að heimilin eiga nú í svona miklum skuldavanda. Augljósar ástæður eru miklar lækkanir annars vegar í ráðstöfunartekjum heimilanna og hins vegar í fasteignaverði. Í þessari grein er því haldið fram að hinar miklu skattahækkanir undanfarin ár eigi verulegan þátt í hvoru tveggja.

Ráðstöfunartekjur heimilanna

Samkvæmt opinberum gögnum Hagstofunnar hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna lækkað mjög verulega frá árinu 2008. Á árinu 2011, hinu nýjasta í gagnaröð Hagstofunnar, var kaupmáttur ráðstöfunartekna hvorki meira né minna en 24% eða næstum fjórðungi minni en hann var á árinu 2007. Á árinu 2012 er líklegt að hann hafi verið um 20% lægri (sjá meðfylgjandi línurit). Þessi lækkun ráðstöfunartekna stafar auðvitað fyrst og fremst af lækkun raunlauna og minnkaðri atvinnu, en hún stafar einnig af aukinni skattheimtu.

Hækkun skatta

Skattar hafa sem kunnugt er verið stórhækkaðir frá árinu 2008. Þessar hækkanir taka til nánast allra opinberra gjalda, allt frá útsvarinu og ýmsum sérstökum gjöldum til sveitarfélaga, til virðisaukaskatts, tekjuskatts og aragrúa sérgjalda sem renna í ríkissjóð. Þessi aukna skattheimta hefur m.a. haft tvennt í för með sér. Í fyrsta lagi hefur hún lækkað þann hluta af tekjum heimilanna sem unnt er að ráðstafa til að greiða vexti og afborganir af lánum. Hins vegar hefur hún dýpkað og framlengt kreppuna.

Hinir hækkuðu skattar koma auðvitað mismunandi niður á heimilunum, ekki síst þegar tekið er tillit til þeirra millifærslna sem hluti þeirra er notaður í. Ekki er fjarri lagi að ætla að þau heimili sem hafa um eða yfir meðaltekjur greiði nú að jafnaði 10% hærri hluta tekna sinna í skatta. Þessir auknu skattar gætu því hæglega samsvarað hálfri til einni milljón króna á ári fyrir þessi heimili að jafnaði. Þá upphæð er með öðrum orðum ekki lengur unnt að nota til að borga af lánum og munar um minna.

Skattar og tekjur heimilanna

Kreppan sem hófst árið 2008 hefur reynst miklu langvinnari en reiknað var með í upphafi. Samkvæmt áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda frá nóvember 2008 hefði henni átt að vera á lokið árið 2012. Á því ári reyndist verg landsframleiðsla hins vegar enn 5,2% minni en hún var 2007 (sjá meðfylgjandi línurit). Jafnframt eru hagvaxtarhorfur á komandi árum nú taldar slakar.

Ástæðan fyrir þessum dapurlega árangri er öðru fremur röð mistaka í efnahagsstjórninni sem ekki var séð fyrir er hinar upphaflegu áætlanir voru gerðar. Ein þessara mistaka eru hinar miklu skattahækkanir. Skattahækkanirnar hafa dregið úr framtaki, fjárfestingum og einkaneyslu sem eru hefðbundnir aflvakar hagvaxtar. Allt þetta hefur verið í sögulegu lágmarki undanfarin ár. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er jafnvel vafasamt að þær fjárfestingar sem í hefur verið lagt undanfarin fjögur ár hafi dugað fyrir afskriftum og rýrnun þeirra fjármuna sem til eru. Þá þarf ekki að orðlengja það að framlenging kreppunnar og þar með lítill kaupmáttur og brottflutningur fólks frá landinu hefur þrýst fasteignaverði lengra niður og komið í veg fyrir að það hækkaði með eðlilegum hætti.

Lokaorð

Þannig sjáum við að skattahækkanirnar stuðla að skuldavanda heimilanna með a.m.k. þrennum hætti. Í fyrsta lagi lækka þær beinlínis ráðstöfunartekjur flestra heimila. Í öðru lagi hafa þær framlengt kreppuna og lækkað þannig raunlaun heimilanna umfram það sem að öðrum kosti hefði orðið. Í þriðja lagi hefur framlenging kreppunnar og hið dauðyflislega ástand í hagkerfinu haldið fasteignaverði lengur niðri en efni stóðu til.

Allt hefur þetta bitnað illilega á skuldugum heimilum og aukið á vanda þeirra. Erfitt er að segja til um það hversu sterk þessi skattaáhrif eru. Af ofangreindu er þó fullvíst að þau eru veruleg. Það sorglegasta er að þessi aukni vandi skuldugra heimila sem stafar af skattahækkunum var alger óþarfi. Hann er afleiðing rangrar efnahagsstefnu sem gripið var til af fyrirhyggjuleysi og að því er virðist fyrst og fremst til þess að fullnægja úreltum kreddum. Öll þjóðin borgar brúsann og því miður er hvað minnst borð fyrir báru hjá skuldugum heimilum.

lesa áfram

Endurreisn skattkerfisins

Eftir Óla Björn Kárason, blaðamann

Mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum verður endurreisn skattkerfisins úr rústum liðlega fjögurra ára vinstri stjórnar. Hátt á annað hundrað breytingar hafa eyðilagt skattkerfið, gert það ógagnsærra og ranglátara. Sá sem tekur við lyklavöldunum í fjármálaráðuneytinu verður að vinda ofan af skattahækkunum síðustu ára samhliða því að einfalda kerfið. Hvernig til tekst mun ráða mestu um það hvort Íslendingum tekst að vinna sig út úr efnahagslegum þrengingum.

Við Íslendingar vitum af eigin reynslu að með því að skattleggja minna er hægt að fá meira. Við vitum að með því að hætta að refsa fyrir velgengni með ofursköttum, eykst velmegun almennings og hagsæld verður meiri. Ráðstöfunartekjur hækka og fyrirtækin styrkjast og dafna.

Lægri skattar og auknar tekjur

Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir umfangsmiklum breytingum á skattkerfinu eftir flokkurinn settist í ríkisstjórn árið 1991. Tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja var lækkaður, aðrir skattar ýmist lækkaðir eða felldir niður.

Þrátt fyrir umfangsmiklar skattalækkanir jukust skatttekjur ríkissjóðs verulega. Frá 1991 til 2007 tvöfölduðust tekjurnar að raunvirði. Með meiri hófsemd í skattheimtu styrktust tekjustofnar ríkisins og gáfu meira af sér. Þetta sést vel á því að tekjuskattur fyrirtækja var 50% árið 1985 en var kominn niður í 18% árið 2003. En skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hækkuðu engu að síður úr 0,9% í 1,5%.

Skatttekjur í tíð íhaldsins

Því miður hafa vinstri menn aldrei skilið einfalt lögmál: Því meira sem eitthvað er skattlagt því minna færðu af því. Að sama skapi: Því meira sem velgengni er skattlögð því minni verður velgengnin.

Vítamínsprauta

Íslenskt efnahagslíf þarf vítamínsprautu. Með markvissum og skynsamlegum skrefum við lækkun skatta, afnámi gjaldeyrishafta og einfaldara regluverki er hægt á skömmum tíma að hefja sókn í atvinnumálum.

Uppstokkun skattkerfisins – endurreisn skattstofna ríkisins – á komandi kjörtímabili verður að taka mið af því að sníða viðskipta- og efnahagslífi þjóðarinnar umgjörð sem eflir en dregur ekki úr, eykur en kæfir ekki þrótt einstaklinga og fyrirtækja. Það verður að hverfa frá stefnu vinstri manna sem ekki mega sjá neitt hreyfast án þess að vilja skattleggja það.

Skattur á vinnu

Samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs mun tryggingagjald – sem er í raun lítið annað en skattur á laun og störf – skila ríkissjóði um 70,6 milljörðum króna. Þetta eru liðlega 22 milljörðum króna hærri tekjur en árið 2008. Þrátt fyrir vilyrði hefur tryggingagjaldið ekki verið lækkað.

Óli Björn Kárason

Ofurskattur á laun og störf hefur dregið úr möguleikum fyrirtækja til að fjölga starfsmönnum og/eða hækka laun þeirra sem þegar eru í vinnu. Launamenn greiða þennan skatt með óbeinum hætti í formi færri starfa og lægri launa. Fyrirtækin bera skattinn og eru í spennitreyju. Afleiðingin er sú að afkoma fyrirtækjanna er verri sem hefur aftur áhrif á tekjur ríkisins. Og ríkissjóður verður af tekjum þar sem störfum fjölgar ekki. Atvinnuleysi er meira en ella og þar með útgjöld ríkisins hærri. Hringavitleysan er í fullum gangi.

Öll skynsamleg rök hníga að því að fyrsta skref nýrrar ríkisstjórnar við endurreisn skattstofna sé að lækka tryggingagjaldið verulega. Að því loknu á að endurskoða tekjuskattskerfið frá grunni, einfalda það, draga úr eða fella niður tekjutengingar og taka upp eina einfalda skattprósentu á komandi árum. Flókið tekjuskattskerfi með háum jarðarsköttum dregur ekki aðeins úr hvatanum til að afla sér tekna, heldur kemur ekki síst niður á þeim sem síst skyldi – launamönnum sem eru með lágar tekjur og takmarkaða möguleika til vinnu.

Verkefnin við að endurheimta skattstofna eru fleiri. Nauðsynlegt er að gjörbreyta og grisja frumskóg tolla og vörugjalda. Markmiðið er ekki síst að færa verslunina aftur heim til Íslands og skjóta þannig styrkari stoðum undir mikilvæga atvinnugrein. Ríkissjóður mun þegar upp er staðið njóta góðs af.

Ranglæti sem verður að leiðrétta

Ekki verður því haldið fram að réttlæti og sanngirni hafi verið með í för þegar ríkisstjórnin rústaði skattkerfinu. Innleiðing eignaupptökuskatts – sem vinstri menn kalla auðlegðarskatt – er bein árás á eldra fólk og sjálfstæða atvinnurekandann. Margir eiga ekki annan kost en að stofna til skulda eða selja eignir til að standa skil á skattinum. Sjálfstæðir atvinnurekendur hafa þurft að ganga á eigið fé til að greiða eignaupptökuskattinn og eftir stendur veikara fyrirtæki.

Eignaupptökuskatturinn er siðferðilega ranglátur og því getur ný ríkisstjórn ekki vikið sér undan því að afnema skattinn.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur dæmi um þau mörgu verkefni sem bíða nýrrar ríkisstjórnar. Hvort hafist verður handa við að endurreisa skattstofna ríkisins ræðst af því hvort stefna Sjálfstæðisflokksins í skattamálum fær að ráða för eða hvort hugmyndafræði vinstri manna verður fylgt áfram næstu fjögur árin. Reynslan síðustu ár gefur ágæta vísbendingu um hvernig staðan verður eftir fjögur ár nái vinstri menn að halda leik sínum áfram.

Áður birt í Morgunblaðinu 27. mars 2013 og á vef Óla Björns www.t24.is.

 

lesa áfram

Ögmundarstofa

Lagt verður fram frumvarp á yfirstandandi þingi fyrir tilstilli Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um veðmálastarfsemi á Íslandi. Ætlunin er að koma á fót sérstakri stofnun, Happdrættisstofu, og verður hlutverk hennar m.a. að stemma stigu við fjárhættuspili á netingu, hafa umsjón með leyfisveitingum fyrir happdrættum, sinna eftirliti o.s.frv. Eitthvað sem ætla mætti að tæki eins og 1 – 2 tíma á dag fyrir embættismann í ráðuneytinu. En nú skal sett upp heil „stofa” til að sinna þessu á kostnað neytenda.

Af þessu tilefni skrifaði Arnar Sigurðsson, fjárfestir, grein í Morguinblaðið 13. desember 2012, er ástæða til að birta hana á þessum vettvangi, með leyfi höfundar:

„Oscar Wilde sagði eitt sinn að hann gæti staðist allt nema freistingar. Fyrir stjórnlynda stjórnmálamenn á borð við Ögmund Jónasson er sömuleiðis fátt meira freistandi en gott tækifæri til að stjórna freistingum annarra enda eru stjórnlyndir að öllu jöfnu ófærir um að hafa stjórn á eigin ofstjórnunaráráttu.

Þó að Ögmundur Jónasson sé þekktur fyrir flest annað en aðdáun sína á frelsi einstaklingsins til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigið líf, er óhætt að fullyrða að stjórnlyndisæði ráðherrans og ofstækisflokks hans, VG, hafi náð nýjum hæðum með lagafrumvarpi um svokallaða „Happdrættisstofu“ sem líklega væri nær að kenna við stjórnlyndisfíkilinn og kalla Ögmundarstofu.

Fjárhættuspil þar sem veðjað er á móti hugbúnaði sem forritaður er til þess að bera sigur af hólmi má segja að sé ígildi skattlagningar á heimsku. Því má segja að tilvonandi „Happdrættisstofa“ Ögmundar sé tilraun til þess að vinna á heimsku með stjórnvaldi. Eins og frumvarp Ólínu Þorvarðar um niðurgreiðslu á galdralækningum sýnir, er fátt svo heimskt að stjórnlyndir sjái ekki tækifæri til að sólunda almannafé í opinberar „lausnir“, svo dæmi sé tekið af handahófi. Líkurnar á að mælanlegur árangur verði af happdrættisstofu Ögmundar eru reyndar slíkar að líklega væri vænlegra að niðurgreiða heimsku spilafíkla beint þannig að þeir verði ekki fyrir fjárhagstjóni frekar en að ráðast í stofnun og rekstur heillar stofnunar. Hugmyndin að Happdrættisstofu er því heimskari en sú heimska sem henni er ætlað að fyrirbyggja.

Til einföldunar má skipta fjárhættuspili þjóðarinnar í tvennt. Annarsvegar innlenda spilakassa og happdrættismiða sem hver sem er getur keypt, börn jafnt sem fullorðnir, andlega vanheilir sem heilbrigðir. Þá starfsemi telur Ögmundur að „njóti virðingar og sé samfélaginu mikilvæg“. Hinsvegar eru erlendar veðmálasíður sem samkvæmt Ögmundi eru upp til hópa reknar af alþjóðlegum glæpahringjum sem af einhverjum ástæðum takmarka þó aðgang við þá sem hafa greiðslukort og náð hafa 18 ára aldri. Að stöðva hið síðarnefnda er að mati Ögmundar hvorki meira né minna en „brennandi“ málefni og það þó að um 99% þjóðarinnar stundi alls ekki neins konar netspilun. Ögmundur telur erlendar veðmálasíður hina mestu vá en engu að síður „…nauðsynlegt að fólki standi til boða sambærileg spil á vegum trúverðugra íslenskra fyrirtækja“. Engu skiptir þó að íslenskir veðbankar bjóði mun óhagstæðari þjónustu, þ.e. verri stuðla í veðmálum heldur en erlendir keppinautar. Hér er því ámóta virðing borin fyrir hagsmunum neytenda eins og t.d. með innflutningshöftum á landbúnaðarvörum.

Arnar Sigurðsson, mynd úr Viðskiptablaðinu

Ögmundur ætlar að „koma í veg“ fyrir eitthvað sem hann flokkar sem „ólöglega netspilun á erlendum sem innlendum vefsíðum“. Til að leysa slíkt er Ögmundur trúr rótum sínum og horfir til þess hvernig sósíalísk ríki á borð við Kúbu, Kína og Norður-Kóreu leysa slík mál með ritskoðun á netinu og skorðum við notkun greiðslukorta. Ekki fylgir þó með frumvarpinu ítarleg útflærsla, t.d. um hvernig loka eigi fyrir notkun erlendra greiðslukorta á erlendum síðum, hvernig hægt verði að stöðva notkun íslenskra greiðslukorta ef korthafi ferðast erlendis, hvort tengingar við greiðslumiðlunarkerfi á borð við PayPal, sem aldrei mun beygja sig fyrir meinlokuhugmyndum Ögmundar, verði bannaðar, nú eða hvort úlendingum á Íslandi verði meinaður aðgangur að erlendum síðum sem Ögmundi eru ekki þóknanlegar.

Veruleikafirring Ögmundar er reyndar slík að í greinargerð með frumvarpinu er beinlínis viðurkennt að: „Enginn vafi er á því að greiðslumiðlunarbann telst hindrun á þjónustufrelsi í skilningi Evrópuréttar.“ Að viðurkenna lögbrot í greinargerð með lagafrumvarpi hlýtur að vera nýlunda hér á landi og verðugt rannsóknarverkefni fyrir svokallaða stjórnsýslufræðinga.

Fyrir flest hófsemdarfólk eru veðmál eitthvað sem við viljum sem minnst vita af og allir hafa heyrt reynslusögur af fíklum sem ánetjast slíkri iðju. Því er viðbúið að flestum þyki einfaldlega bara þægilegt að losna við vandamálið með lagaboði. Því er til að svara að sögulega hverfa þjóðir sjaldnast í einni svipan frá frelsi til alræðis heldur er einstaklingsfrelsið étið einn bita í einu, ávallt með göfugum tilgangi hverju sinni. Fjárhættuspil er hinsvegar löstur en ekki glæpur.”

lesa áfram

Vaxtahringekjur

Grein þessi eftir Arnar Sigurðsson, fjáfesti, birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2012. Grein sem vísað er til eftir Sigríði Andersen má finna á heimsíðu Sigríðar, www.sigridurandersen.is, en upphaflega birtust greinar hennar í Fréttablaðinu 8. nóvember og  13. nóvember. Grein Arnars er hér endurbirt með leyfi höfundar.

„Nýverið birti einn af frambærilegri frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Andersen, grein undir fyrirsögninni „Jóhönnulánin“ (http://www.sigridurandersen.is/site/?p=713). Sigríður bendir réttilega á þá hryggilegu staðreynd að þegar öllum mátti ljóst vera að framundan væri djúp verðleiðrétting á fasteignum og gengi krónunnar með tilheyrandi verðbólguskoti um mitt ár 2008 greip þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, til þess að auðvelda grunlausum að steypa sér í skuldafen hjá Íbúðalánasjóði. Því miður eru hins vegar fleiri sorglegar hliðar á inngripum stjórnmálamanna á fjármálamarkaði sem byggjast á „einföldum kosningaskilaboðum“ sem sneydd eru allri grunnhugsun. Ef vaxta- og húsaleigubætur gætu gengið upp í hagfræðilegum skilningi væri full ástæða til að taka upp Nóbelsverðlaun í greininni og veita þau fyrstu til Íslands.

Hér á landi er rekin hávaxtastefna sem ætlað hefur verið það vafasama hlutverk að halda aftur af kaupgleði almennings. Til að milda þá þensluskerðingu dælir hins vegar ríkið um þriðjungi vaxtakostnaðar heimilanna aftur til baka! Eftir sitja fyrirtækin í landinu með háa vaxtabyrði sem heldur aftur af atvinnuuppbyggingu. Til að fjármagna vaxtabæturnar gefur ríkið svo út skuldabréf sem aftur eykur eftirspurn eftir fjármagni sem einnig stuðlar að hærra vaxtastigi. Önnur vaxtahringekja fáránleikans eru s.k. húsaleigubætur. Eins og flestum ætti að vera ljóst ræðst húsaleiga af framboði og eftirspurn auk vaxtastigs. Húsaleigubætur gera ekkert annað en að valda aukinni eftirspurn í húsnæði og þar með hækkun á húsaleigu. Afleiðingin er að hinar rangnefndu „bætur“ renna til leigusala en ekki leigutaka eins og að var stefnt. Góður ásetningur stjórnmálamanna er ekki einungis til ófarnaðar fyrir þá sem njóta eiga því vaxtahringekjurnar eru jafnframt hrikalegur kostnaður fyrir skattgreiðendur.

Eins og margoft hefur verið bent á er Íbúðalánasjóður eins og sjálfsmorðssprengjuvesti á íslensku efnahagslífi. Sjóðurinn er afleitur valkostur fyrir lántakendur, með hæstu raunvexti á byggðu bóli og því algerlega óskiljanlegt hvers vegna starfseminni er haldið áfram. Þrátt fyrir vaxtaokrið hafa skattgreiðendur einnig þurft að leggja sjóðnum nú þegar til meðgjöf sem nemur andvirði útrásarhallarinnar Hörpu og furðuhljótt hefur verið um. Nú virðist hins vegar vanta vel á annað hundrað milljarða til að sjóðurinn geti staðið í skilum. Meðvirkir stjórnmálamenn allra flokka virðast ætla að taka á því vandamáli af svipaðri festu og skuldavanda Orkuveitunnar á sínum tíma og gott ef sumir myndu ekki bara vilja að sjóðurinn borgaði út arð til eiganda síns sem n.k. lýtaaðgerð á ríkisreikningnum að ekki sé nú minnst á þá hugmynd að hinn gjaldþrota sjóður geti greitt úr skuldavanda heimilanna!

Stundum er sagt að Íslendingar þurfi ráðamenn með kjark og þor til að taka á aðsteðjandi vanda. Engar slíkar forsendur þarf til að taka á vanda Íbúðalánasjóðs, einungis lítilsháttar skynsemi. Loka þarf sjóðnum í núverandi mynd með því að setja hann í hefðbundna slitameðferð eins og gert var með föllnu bankana. Nægt framboð er af lánsfé á almennum markaði auk þess sem ESA hefur nú þegar úrskurðað að núverandi rekstur sé skýrt samkeppnisbrot á fjármálamarkaði og að endurgreiða þyrfti frekari ríkisaðstoð við sjóðinn.”

 

lesa áfram

Ráðalaus Íbúðalánasjóður

Grein eftir Arnar Sigurðsson, fjárfesti, sem upphaflega birtist í Viðskiptablaðinu 19. september 2012, og er hér endurbirt með leyfi höfundar. Viðskiptablaðið hefur ítrekað fjallað um vanda Íbúðalánasjóðs, í fréttum, leiðara og umfjöllun undir nafni Óðins.

„Albert Einstein skilgreindi geðveilu sem háttalag þar sem sama aðgerð væri endurtekinn í sífellu í von um breytta niðurstöðu. Ef áætlanir stjórnvalda hér á landi ná fram að ganga um að sökkva 14,5 milljörðum af almannafé í óstöðvandi fjárþörf Íbúðalánasjóðs, á eftir 30 milljörðum sem brunnið hafa upp á síðustu tveimur árum, mætti ætla að einnhverskonar veila gangi laus í íslenska stjórnarráðinu. Sögnin að ráða hefur m.a. þá merkingu að stjórna og að hafa ráð tiltæk í hugtakinu úrræði ef vanda ber að höndum. Ráða-menn standa undir hvorugri skilgreiningunni ef einu úrræðin eru að ausa almannafé á vandamál og hækka skatta í stað þess að fyrirbyggja framtíðarvandamál sem þó hefur verið varað við árum saman. Löngu hefur verið vitað í hvað stefndi með Íbúðalánasjóð sem talinn er vera rekinn með ríkisábyrgð. Sem betur fer er hinsvegar hvergi til stafkrókur í lögum frá Alþingi þess efnis að skuldbindingar sjóðsins séu á ábyrgð ríkissjóðs enda hefur sjóðurinn aldrei greitt lögbundið gjald vegna ríkisábyrgðar. Í “Skýrslu nefndar um endurskoðun ríkisábyrgða og tillögur til breytinga” frá árinu 1997 kemur reyndar fram það: “…sjónarmið að ef til vill ættu aðilar í þessari stöðu að greiða ábyrgðargjald til ríkissjóðs vegna skuldbindinga sinna…… Meirihluti nefndarinnar leit hinsvegar svo á að slíkt kæmi ekki til greina þar sem með því væri óbeint verið að viðurkenna ríkisábyrgð auk þess sem grundvöll til slíkrar innheimtu skorti, væri ekki um ótvíræða ríkisábyrgð að ræða”

Einu gildir hvort vænhæfni sérfræðinga er um að kenna eða hvort illmögulegt sé að rýna í framtíðina, niðurstaðan er sú sama að ófarir skattgreiðenda virðast alltaf óvæntar. Þrátt fyrir vandlega úttekt árið 2006 sem unnin var af hópi “sérfræðinga” komst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að:

“Ólíklegt er að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs stefni niður fyrir áskilin hlutföll í fyrirsjáanlegri framtíð. Vegna þessa er líka ólíklegt að reyna muni á ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins”

Að sögn sjóðsins er talið að leiða megi almennt af íslenskri lögskipan að Íbúðalánasjóður sem stofnun í eigu ríkisins njóti ótakmarkaðrar ábyrgðar, t.d. sé kveðið á um það í gjaldþrotalögum að sjóðurinn geti ekki orðið gjaldþrota. Þannig megi ætla að ríkissjóður sem eigandi beri ótakmarkaða ábyrgð á sjóðnum.

Þessi tilvísun til gjalþrotalaganna stenst hisvegar ekki því sérstaklega er kveðið á um í 5. gr. að ekki sé hægt að taka stofnun til gjaldþrotaskipta ef ríkið ábyrgist skuldir.

Með lögum um ríkisábyrgðir er ekki almenn heimild til slíkrar afleiddar ríkisábyrgðar heldur einmitt kveðið á um að sérstaka lagaheimild þurfi til að virkja ríkisábyrgð, 1tl. 3. gr. Í lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 sem taka til ÍLS er ekkert vikið að ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Jafnframt er það ekki meginregla ísl. réttar að ríkið sé ábyrgt fyrir skuldbindingum sjálfstæðra stofnana. Á þetta hefur ekki reynt þannig að augljóslega getur ekki getur verið um meginreglu að ræða.

Samkvæmt lögum 121/1997 um ríkisábyrgðir er skýrt kveðið á um að “Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum”

Samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar frá því í janúar á þessu ári segir m.a. að”..stjórnarskráin krefst þess í reynd að lagaheimild sé fyrir ríkisábyrgðum og annars konar skuldbindingum ríkisins, eins og gildir um lántökur. Hefur framkvæmdin enda verið með þeim hætti.” Engu að síður kemst stofnunin að þeirri ályktun í úttekt á Íbúðalánasjóði að ríkisábyrgð tryggi lánveitendum sjóðsins fullar endurheimtur.

Það er því síður en svo ljóst að ófrávikjanleg ríkisábyrgð hvíli á öllum skuldbindingum sjóðsins og skiptir engu þó starfsmenn hans hafi hingað til staðið í annari trú og sett slík ákvæði inn í skráningarlýsingu skuldabréfa sjóðsins. Embættismenn geta aldrei gefið út ríkisábyrgð, einungis Alþingi. Óljóst orðalag í C hluta fjárlaga um ríkisábyrgðir byggt á útgáfuáætlun sjóðsins hverju sinni geta vart kallast skýr ríkisábyrgð á t.d. skuldbindingu um að ekki megi greiða upp útgefin skuldabréf.

Eins og áður hefur verið vikið að er rekstur Íbúðalánasjóðs slæmur kostur fyrir lántakendur því vextir sjóðsins eru þeir hæstu í heimi en afleitur kostur fyrir skattgreiðendur sem þurfa að dæla í hítina tugum milljarða til að halda stofnuninni ofanjarðar. En hvað er til ráða?

Með því að dæla stöðugt almannafé í Íbúðalánasjóð er í raun verið að tryggja lánveitendum íbúðalánasjóðs, nokkurs konar “áhyggjulaust ævikvöld” með hámarks arðsemi af glannalegri útlánastarfsemi sjóðsins. Nærtækast væri að loka fyrir ný útlán frá sjóðnum í núverandi mynd og kanna með hvaða hætti, lánveitendur tækju á sig hluta af neikvæðri afkomu sjóðsins. Fjárfestar myndu þannig uppskera eins og til hefur verið sáð með tíð og tíma þar til skuldabréf sjóðsins verða komin á gjalddaga árið 2044. Með því að taka af allan vafa um ríkisábyrgð, myndi skuldastaða ríkissjóðs batna um hátt í 1.000 milljarða og lánshæfismat ríkissjóðs batna.

Raunsætt verður líklega að líta sem svo á að þrátt fyrir hrakfarirnar með Íbúðalánasjóð og þá staðreynd að flestir lántakendur kvarti undan hinu verðtryggða útlánakerfi hins opinbera, mun pólitískur rétttrúnaður tryggja að áfram verði ástundaður ríkisrekstur á þessu sviði. Nærtækt væri að stofna nýjan heildsölubanka án ríkisábyrgðar sem þjónusta myndi bankastofnanir sem afgreiddu lánin gegn fyrsta veðrétti en framseldu svo veð í útlánasöfnum sínum til hins nýja heildsölubanka. Þar með yrði líka komist hjá brotum á EES samningnum en núverandi rekstur Íbúðalánasjóðs er skýrt samkeppnisbrot samkvæmt niðurstöðu ESA. Hugsanlega yrði eigendum þeirra skuldabréfa sem sjóðurinn hefur gefið út boðið að skipta út eldri bréfum fyrir hin nýju á lægri kröfu eða sæta uppgreiðslu ella miðað við nafnvexti bréfana 3,75%. Hér væri því um afar áþekka aðgerð að ræða og þegar húsbréfakerfinu var breytt í íbúðabréf.

Miðað við ávöxtunarkröfu á markaði í dag mætti ætla að nýr heildsölubanki myndi geta boðið mun hagstæðari lán en áður og því ætti breytingin að ganga vel í lántakendur auk þess sem girt væri fyrir tugmilljarða meðgjöf með sjóðnum í framtíðinni.

Vissulega munu hagsmunaaðilar reka upp ramakvein enda hafa núverandi skuldabréf verið gulls ígildi fyrir fjárfesta árum saman og tryggt mönnum auðvelda ávöxtun. Um það bil 70% af verðtryggðum skuldabréfum íbúðalánasjoðs eru í eigu lífeyrissjóða sem líklega myndu ekki tapa á breytingunni. Það littla tap sem slíkir aðilar myndu þurfa að taka á sig með framangreindri breytingu væri þó ekki nema brot af þeirri áhyggjulausu ávöxtun sem þeir hafa fengið á silfurfati á undangengnum árum.

Samandregið hefðu ofangreindar breytingar eftirfarandi afleiðingar í för með sér:

 • Tugmilljarða sparnaður fyrir skattgreiðendur.
 • Tæplega 1000M minni skuldabyrði á efnahagsreikningi ríkissjóðs (vegna óljósrar ábyrgðar).
 • Bætt lánshæfismat ríkissjóðs.
 • Vaxtalækkun á nýjum fasteignalánum.
 • Samkeppnisárekstrar milli ÍLS og viðskiptabanka úr sögunni sem og kærumál vegna brota á EES samningnum.
 • Góður grunnur til að minnka vægi verðtryggingar.
 • Svigrúm fyrir lægri stýrivexti og betra miðlunarferli peningastefnu Seðlabankans.
 • Hefðbundin útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja yrði með eðlilegri og líklega hagkvæmari hætti fyrir neytendur.

Verðtryggð velferðarstefna fjármagnseigenda á kostnað skattgreiðenda hlýtur að vera komin á leiðaranda.”

lesa áfram

Íbúðalánasjóður sekkur

Arnar Sigurðsson, fjárfestir, hefur ítrekað vakið athygli á vanda Íbúðlánasjóðs, en það var fyrst í lok árs 2012, sem fjölmiðlar almennt fóru að fjalla um risavaxinn vanda sjóðsins. Búið er að plástra stöðu hans lítilsháttar, en fyrirsjáanlegt að skattgreiðendur verði í framtíðinni látnir axla miklar byrgðar af slælegum rekstri sjóðsins.

Arnar skrifaði í Morgunblaðinu 31. maí 2012 þessa grein um Íbúðalánasjóð:

„Ronald Reagan sagði eitt sinn að níu hræðilegustu orðin í enskri tungu væru „I‘m from the government and I‘m here to help.“ Líklega eiga þau orð hvergi betur við en með „hjálp“ þá sem Íbúðalánasjóður veitir Íslendingum.

Viðskiptablaðið hafði nýverið eftir nýjasta fjármálaráðherranum, Oddnýju Harðardóttur, undarlega frétt sem lítið fór fyrir, þess efnis að „Ekki væri búið að ákveða hvenær Íbúðalánasjóði verður lagt til aukafé, sem sjóðurinn þarf á að halda.“ Á heimasíðu sjóðsins kemur hinsvegar fram að hann „er fjárhagslega sjálfstæður og stendur undir lánveitingum og rekstri með eigin tekjum“.

Framangreind lýsing um sjálfstæði er því ámóta trúverðug og að forsetaframboð Þóru og Svavars sé óháð Fréttastofu RÚV, svo dæmi sé tekið af handahófi.

Ef svonefndur „tilgangur“ sjóðsins er skoðaður kemur í ljós að starfsmenn hans hyggjast „stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

Arnar Sigurðsson, mynd úr Viðskiptablaðinu

Leið Íbúðalánasjóðs til heljar er vitaskuld vörðuð góðum ásetningi eins og „öryggi, jafnrétti, möguleika og viðráðanleg kjör“. Íbúðalánasjóður er hinsvegar ekkert annað en millilag, n.k. heildsala sem tekur peninga að láni og lánar út aftur, rétt eins og venjulegir bankar gera. Ef vaxtaþóknun sjóðsins er skoðuð mætti ætla að reksturinn ætti að vera vel „viðráðanlegur“ fyrir bankamenn hins opinbera en svo er hins vegar ekki. Vextir þeir sem sjóðurinn borgar eru u.þ.b. 2% en útlánin, þ.e. hin (ó)viðráðanlegu kjör“ til almennings eru hinsvegar 4,7%. Vaxtamunurinn samsvarar því ekki minna en 100% álagningu!

Þrátt fyrir vaxtaokrið er rekstur sjóðsins hinsvegar svo galinn að skattgreiðendur þurfa að leggja sjóðnum til tugi milljarða að auki. Verðtryggð útlán sem sjóðurinn veitir almenningi bera verðbólguáhættu, sem almenningur hefur enga forsendu til að meta, í ofanálag við hæstu raunvexti í heimi. Ein afleiðing er að vanskil við sjóðinn nema nú hvorki meira né minna en 160 milljörðum!

Þetta lánaform kennir sjóðurinn við „öryggi“ en lætur þess ógetið að um öryggi fjármagnseigenda sem lána sjóðnum er að ræða. Þegar öllu er á botninn hvolft kemur í ljós að Íbúðalánasjóður er slæmur kostur fyrir lántakendur en afleitur kostur fyrir skattgreiðendur en reksturinn einn og sér kostar yfir 2 milljarða á ári.

Sirkus fáránleikans nær þó fyrst hámarki þegar framkvæmd markmiðsins um að auðvelda fólki að kaupa fasteignir er skoðað. Sjóðurinn berst hatramlega gegn lækkun fasteigna- og leiguverðs með því að kaupa sjálfur u.þ.b. 2000 fasteignir þeirra sem ekki hafa staðið í skilum. Markmiðið með þessum uppkaupum er að halda uppi fasteignaverði og gengur sjóðurinn svo langt að leigja ekki út íbúðir á þeim stöðum þar sem „offramboð“ gæti verið til staðar að mati spákaupmanna sjóðsins.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að fasteignir vega um þriðjung í vísitölu neysluverðs og að hver prósenta í verðbólgu kostar almenning, beint og óbeint um 20 milljarða á ári. Gera má ráð fyrir að uppgreiðslur hjá sjóðnum aukist. Það kemur sjóðnum afar illa því til að tryggja velferð fjármagnseigenda er sjóðnum óheimilt að uppgreiða sín lán samsvarandi. Varlega áætlað þyrfti um 100 milljarða til að geta staðið straum af því misræmi sem framundan er.

Íbúðalánasjóður hefur nú þegar siglt á ísjaka eins og Titanic forðum. Almenningur getur treyst á að stjórnmálamenn munu fumlaust endurraða þilfarsstólunum eins og sést í hinni nýju fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þar sem áætlað er að leggja sjóðnum til 2 milljarða í eigið fé en breyta engu að því er starfsemina varðar.”

 

lesa áfram

efst