Er eitthvað „samnings” við búvörusamninginn?

Opinn morgunverðarfundur um nýgerða búvörusamninga verður haldinn þriðjudaginn 1. mars nk. Á fundinum verður sjónum beint að samningunum séð frá hagsmunum íslenskra neytenda. Að fundinum standa Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda, Viðskiptaráð Íslands, Neytendasamtökin, ASÍ, Félag eldri borgara, Samtök skattgreiðenda og Öryrkjabandalag Íslands.

Fundurinn verður haldinn á Grand Hóteli. Morgunmatur frá kl.8.00. Dagskrá hefst kl. 8.30 og stendur til kl. 10.00. Enginn aðgangseyrir.

Dagskrá:

Daði Már Kristófersson dósent í hagfræði og forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
Er hagsmuna neytenda gætt í nýjum búvörusamningum?

Umræður og fyrirspurnir.

VIÐ PALLBORÐ SITJA:
Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ
Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda
Teitur Atlason, varaformaður Neytendasamtakanna
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni

Fundarstjóri: Margrét Sanders, formaður SVÞ

NM73908-Búvörusamningur1-600x675

lesa áfram

Auðlindaskattur og auðlegðarskattur óskynsamlegir

Auðlindaskattur í sjávarútvegi er óheppilegur, ef setja á hann á til að tryggja skynsamlega nýtingu fiskistofna, því að það mun aldrei takast. Hagsmunaaðilar munu aldrei samþykkja hann. Horfur á samkomulagi við hagsmunaaðila væru miklu vænlegri, þegar aflaheimildum væri í upphafi úthlutað ókeypis í samræmi við aflareynslu. Og auðlindaskattur er líka óheppilegur, ef setja á hann á til að gera hugsanlegan fiskveiðiarð upptækan, því að hagsmunaaðilarnir skapa þennan arð, og hann myndi minnka við auðlindaskatt. Kerfi framseljanlegra og einstaklingsbundinna aflakvóta hvetti til fjárfestinga og nýsköpunar. Hins vegar er allt í lagi að leggja á veiðigjald til að standa undir kostnaði við stjórnun og eftirlit með fiskveiðum. Prófessor Corbett Grainger frá Háskólanum í Wisconsin-ríki kynnti þessar niðurstöður úr rannsóknum sínum á fjölmennri málstofu RNH og Samtaka skattgreiðenda 24. október 2014, þar sem Skafti Harðarson var fundarstjóri og dr. Birgir Þór Runólfsson umsegjandi.

Ragnar Árnason, prófessor í Háskóla Íslands, ræddi um mælingar á tekjudreifingu. Hann kvað þær ósjaldan svo ófullkomnar, að fráleitt væri að reisa kröfur um stórkostlegar skattabreytingar — til dæmis sérstakan skatt á stóreignamenn eða hátekjufólk — á þeim. Gini-stuðullinn, sem oft væri notaður, vegna þess að hann væri einfaldur í notkun, veitti svipaðar upplýsingar um tekjudreifingu og sú lýsing á hesti um hann, að hesturinn væri brúnn á litinn. Einn Gini-stuðull væri til fyrir margar ólíkar og misjafnar tekjudreifingar. Ragnar sýndi fram á, að Gini-stuðull fyrir tiltekið land myndi hækka, ef háskólanemum og ellilífeyrisþegar fjölgar hlutfallslega vegna aukinnar háskólamenntunar og lengri meðalaldurs, en hvort tveggja væri jafnan talið æskilegt. Einsársmælikvarðar eins og Gini-stuðullinn væru ófullkomnir, því að miða þyrfti við ævitekjur hvers manns, sem væri breytilegar, stundum lágar (á meðan hann væri námsmaður og lífeyrisþegi), en stundum háar (þegar hann væri á hátindi orku og aflagetu um miðjan aldur). Vísaði Ragnar til ritgerða um þetta í bókinni Tekjudreifingu og sköttum, sem nýútkomin er hjá Almenna bókafélaginu.

Hannes H. Gissurarson, prófessor í Háskóla Íslands, taldi ýmsar veilur vera í umtöluðu verki Thomasar Pikettys, Fjármagni á 21. öld. Tölur Pikettys um eignadreifingu hefðu sumar reynst rangar, en ef til vill væri rétt, að tölur um tekjudreifingu á Vesturlöndum sýndu, að úr henni hefði teygst upp á við, ríku fólki hefði fjölgað og það orðið ríkara. En tekjudreifing í heiminum í heild væri orðin jafnari. Skýringin á þessari þróun væri hnattvæðingin: Kínverskir og indverskir verkamenn veittu starfsbræðrum sínum harða samkeppni, en jafnframt hefði fólk með einstæða og ófjölfaldanlega hæfileika (afburðastjórnendur, kvikmyndastjörnur, íþróttahetjur, uppfinningamenn) eignast miklu stærri markað fyrir þjónustu sína og öðlast ofurtekjur. Ekkert væri heldur að ójafnri tekjudreifingu, væri hún tekjudreifing samkvæmt frjálsu vali. Það væri síðan ekki eins víst og Piketty héldi, að fjármagn ávaxtaðist ætíð hraðar en hagvöxtur. Fjármagn hlæðist ekki upp, heldur dreifðist með tímanum (eins og skáldsögur Balzacs, sem Piketty vitnaði óspart í, sýndu), og hagvöxtur gæti haldið áfram að vera ör, væri sköpunarmáttur kapítalismans nýttur.

Málstofan var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Vakti hún mikla athygli fjölmiðla. Viðskiptablaðið og Morgunblaðið birtu bæði fréttir um, að hún stæði fyrir dyrum, og Morgunblaðið birti frásögn af henni og viðtöl við frummælendur.

Glærur fyrirlesaranna má finna vef RNH, en þar birtist þessi frásögn af fundinum upphaflega.

lesa áfram

Málstofa um tekjudreifingu og skatta

Föstudaginn 24. október kl. 16 verður málstofa RNH um „Tekjudreifingu og skatta“ í fundarsal Gamma á jarðhæð við Garðastræti 37. Þar mun prófessor Corbett Grainger frá Wisconsin-háskóla í Madison bera saman tvær lausnir á fiskveiðivandanum, skattlagningu eða úthlutun afnotaréttinda, prófessor Ragnar Árnason greina ýmsar mælingaskekkjur og hugsanavillur um tekjudreifingu og skattbyrði og prófessor Hannes H. Gissurarson gagnrýna kenningar franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys um sífellt breiðara bil milli ríkra og fátækra.

Málstofan er haldin í tilefni af því, að komið er út hjá Almenna bókafélaginu greinasafnið Tekjudreifing og skattar, sem sex íslenskir fræðimenn skrifa í, Ragnar Árnason, Birgir Þór Runólfsson, Axel Hall, Helgi Tómasson, Hannes H. Gissurarson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Einn samstarfsaðili RNH, RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, styrkti útkomu bókarinnar. Málstofan er haldin í samstarfi við Samtök skattgreiðenda. Eftir fyrirlestra og umræður verður móttaka frá 17.30 til 19.

Allt áhugafólk um tekjudreifingu og skatta er hvatt til að mæta.

lesa áfram

Góður fyrirlestur Lawson

Fyrirlestur prófessor Robert Lawson um atvinnufrelsi mánudaginn 28. júlí var vel sóttur og aðeins fjallað um hann í kjölfarið. Þannig

Umfjöllun Viðskiptablaðsins

birti Viðskiptablaðið grein um fyrirlestur Lawson og Sigríður Andersen fjallaði um hann í pistli sínum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þessa umfjöllun má lesa með því að stækka myndir sem er að finna með þessum pistli.

Þá var fjallað um fyrirlesturinn heimasíðu RNH:

„Þau gögn, sem útvega má með víðtækum mælingum á atvinnufrelsi í 150 löndum og sambandi atvinnufrelsis við lífskjör og farsæld fólks í þessum löndum, styðja afdráttarlaust kenninguAdams Smiths: Auðlegð þjóðanna skapast við verkaskiptingu og frjáls viðskipti. Þegar menn keppa að eigin hag, vinna þeir um leið að almannahag, hvort sem þeir ætla sér það eða ekki. Þessu hélt bandaríski hagfræðiprófessorinn Robert Lawson, einn af höfundum árlegrar mælingar á atvinnufrelsi, index of economic freedom, fram í fyrirlestri á fjölmennum fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda mánudaginn 28. júlí 2014. Tilefni fundarins var, að hundrað ár eru liðin, frá því að heimsstyrjöldin fyrri skall á 28. júlí 1914, en þá riðaði til falls það skipulag, sem Adam Smith hafði mælt fyrir og skilgreint, heimskapítalisminn, kerfi verkaskiptingar og frjálsra viðskipta. En þrátt fyrir að heimskapítalisminn veiktist verulega í heimsstyrjöldunum tveimur og í heimskreppunni, stóð hann þessi áföll af sér og styrktist verulega síðustu áratugi 20. aldar.

Lawson skýrði, hvernig vísitala atvinnufrelsis væri sett saman, og brá upp nokkrum línuritum úr nýjustu mælingu atvinnufrelsis, sem gerð verður opinber haustið 2014. Þar er hagkerfum heims árið 2011 skipt í fjóra hluta eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er þar. Lífskjör — eins og þau mælast í vergri landsframleiðslu á mann — eru að meðaltali langbest í frjálsasta hlutanum og langlökust í ófrjálsasta hlutanum. Hið sama er að segja um lífskjör fátækustu eða tekjulægstu 10%: Þau eru þrátt fyrir allt langskást í frjálsasta hlutanum. Lífslíkur eru líka lengstar í frjálsasta hlutanum og hagvöxtur örastur. Sagan jafnt og reynslan sýndu, að hér væri ekki aðeins um að ræða fylgni, heldur líka orsakasamband: Þegar þjóðir verða

Grein Sigríðar Andersen

frjálsar, komast þær í álnir og geta fyrir vikið útrýmt margvíslegu böli, sem stafar af skorti lífsgæðanna. Lawson kvað áhyggjuefni, að atvinnufrelsi á Íslandi hefði minnkað verulega. Árið 2004 var íslenska hagkerfið hið frjálsasta á Norðurlöndum, en árið 2011 mældist það hið ófrjálsasta. Lawson benti á, að öll gögn um mælingu ársins 2013 á atvinnufrelsi árið 2010 væru aðgengileg á heimasíðu verkefnisins og að öll gögn um mælingu ársins 2014 á atvinnufrelsi árið 2011 yrðu sett þangað í haust. Fyrirlestur Lawsons var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.”

Loks fjallaði stutt blogg Skafta Harðarsonar á Eyjunni um fyrirlestur Lawson og leggur aðeins út frá mælingum á atvinnufrelsi þjóð heimsins.

lesa áfram

Fyrirlestur: Lawson um atvinnufrelsi

Mánudagurinn 28. júlí 2014 er til merkis um mikinn áfanga í sögu mannkyns. Þá verða hundrað ár liðin frá því, að fyrri heimsstyrjöldin (sem þá var kallaður Norðurálfuófriðurinn mikli) skall á, 28. júlí 1914, þegar hin frjálslynda siðmenning Vesturlanda riðaði til falls og alræðissinnar, nasistar og kommúnistar, skiptu á milli sín Mið- og Austur-Evrópu. Öldin á undan hafði verið tímabil friðar, atvinnufrelsis, takmarkaðs ríkisvalds, örra framfara, traustra peninga og vonar í brjósti hundruð milljóna jarðarbúa um betri tíð.

Prófessor Robert Lawson, sem kennir hagfræði í Southern Methodist-háskólanum í Dallas í Texas, er einn af höfundum víðkunnrar rannsóknar á atvinnufrelsiEconomic Freedom of the World, sem kemur út árlega uppfærð með gögnum um atvinnulíf og frelsi í meira en 140 löndum. Mánudaginn 28. júlí ræðir hann, hvernig mæla á atvinnufrelsi og hvað má læra af þeirri mælingu, á fundi Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt (RNH) og Samtaka skattgreiðenda, sem haldinn verður á jarðhæð í Garðastræti 37 (í fundarsal Gamma). Hann fer ekki síst orðum um hina mannlegu vídd atvinnufrelsisins, svo sem bætta heilsu, aukið læsi og fjölgun tækifæra.

Fyrirlesturinn hefst kl. 16.30, en síðan verða umræður og á eftir því móttaka á staðnum. Þeir, sem vilja sækja málstofuna, eru vinsamlegast beðnir að láta af því vita í síðasta lagi á sunnudagskvöld í netfangið rnh@rnh.is eða með því að skrá sig á Facebook-síðu viðburðarins. Fyrirlesturinn er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

lesa áfram

15.000 glasamottum dreift á veitingahús

Samtök skattgreiðenda hafa boðað til blaðamannafundar þar sem vakin verður athygli á átaki sem hefst þann 1. mars og í fréttatilkynningunni sagði m.a.:

„Um 15.000 glasamottum verður dreift á veitinga- og skemmtistaði í Reykjavík og nágrenni og á nokkrum stöðum úti á landi. Glasamotturnar vekja athygli á hárri skattlagningu hins opinbera á bjór. Þá verður þess einnig minnst að 25 ár eru liðin frá afnámi banns við sölu bjórs á Íslandi.

Með þessu átaki er ekki aðeins ætlunin að vekja athygli á þeirri staðreynd að ríkið tekur til sín að meðaltali 75% af smásöluverði bjórs sem seldur er í verslunum ÁTVR og í kringum 50% af smásöluverði á veitingahúsum. Markmiðið er líka að vekja athygli á tilraun hins opinbera til að stjórna neyslu og lífsstíl fólks með skattlagningu, regluverki, innflutnings- höftum o.s.frv. Stjórnmálamenn, embættismenn og sérfræðingar á vegum hins opinbera geta ekki metið hvað einstaklingnum er fyrir bestu hverju sinni og þaðan af síður hvað veitir honum ánægju og lífsfyllingu.

Samtök skattgreiðenda opna sérstaka Facebook síðu um herferðina, þá verður sérstök umfjöllun á heimsíðunni skattgreidendur.is og ný undirsíða þar sem hægt er að senda þingmönnum ósk um lækkun á áfengisgjaldi af bjór og minni afskiptum af neyslu og lífsstíl fólks; www.bjormottan.is. Á Twitter má fylgjast með fréttum af gangi mála undir @bjormottan og er fólk hvatt til að taka þátt í umræðu á netinu undir #bjormottan.”

Sjá einnig upplýsingar á síðu átaksins.

lesa áfram

Fyrirlestur Matthew Elliott á netinu

Föstudaginn 20. september 2013 hélt Matthew Elliott fyrirlestur í Lögbergi, Háskóla Íslands, um viðspyrnuna gegn auknum ríkisafskiptum og ríkisútgjöldum. Elliott er annar stofnanda bresku skattgreiðendasamtakanna, Taxpayers´ Alliance. Nánari upplýsingar hér neðar á síðunni um Elliott og bresku samtökin.

Samtök skattgreiðenda tóku upp og lét þýða fyrirlestur Elliott og hér má sjá hann í heild á YouTube:

Þá var Matthew Elliott líka í viðtali við Gunnlaug Snæ Gunnlaugsson á sjónvarpsstöðinni ÍNN og það viðtal má sjá hér:

lesa áfram

Hættum að fóðra tröllið: Varnarbarátta skattgreiðenda

Dr. Daniel Mitchell, sérfræðingur í skattamálum hjá Cato stofnuninni í Washington, heldur fyrirlestur á vegum Samtaka skattgreiðenda í samvinnu við RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.

Fyrirlestur Dr. Mitchell mun fjalla um tröllaukin ríkisútgjöld í hinum vestræna heimi og mikinn vöxt þeirra í aðdraganda fjármálakreppunnar sem og í kjölfar hennar, undir yfirskriftinni; Starving the Beast. Dr. Mitchell mun einnig fjalla um Laffer kúrvuna svonefndu en samkvæmt henni minnka skattstofnar eftir því sem skattar hækka, svo skattahækkanir skila því ekki þeim tekjum sem til er ætlast. En háir skattar hafa hisn vegar margvísleg önnur skaðlega áhrif á vöx og viðgang efnahagslífsins.

Fundurinn verður haldinn í stofu N-132 í Öskju Háskóla Íslands mánudaginn 4. nóvember nk. kl. 12 – 13.

Dr. Daniel Mitchell lauk prófi í hagfræði frá háskólanum í Georgíufylki og doktorsprófi í hagfræði frá George Mason háskólanum í Virginíu. Hann vann fyrir fjárlaganefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og fyrir Heritage foundation stofnunina í Washington áður en hann hóf störf hjá Cato stofnuninni. Ásamt því að greinaskrifum og fyrirlestrahaldi um skattamál hefur hann einnig skrifað bók, í samtarfi við Chris Edwards, um skattamál, sem út kom árið 2008; Global Tax Revolution – The Rise of Tax Competition and the Battle to Defend It.

lesa áfram

Matthew Elliott frá TaxPayers´ Alliance til Íslands

Fyrirlestur í Háskóla Íslands

Matthew Elliott annar stofnanda TaxPayers´ Alliance í Bretlandi (samtök skattgreiðenda) kemur til Íslands þann 19. september nk. og heldur m.a. fyrirlestur í Lögbergi, Háskóla Íslands, stofu 101, föstudaginn 20. september kl. 12 – 13. Sá fyrirlestur fjallar um viðspyrnuna sem nú er veitt gegn auknum útgjöldum hins opinbera og síhækkandi sköttum og hvernig samtökin hafa hrist upp í bresku stjórnmálum.

Frekari fundir eru fyrirhugaðir, en Matthew er Samtökum skattgreiðenda mikill fengur, eins og lesa má um hér að neðan.

Um Matthew Elliott

Matthew Elliott fæddist í Leeds á Englandi og ólst þar upp. Hann fluttist til London 1997 til að stunda nám við London Scool of Economics þaðan sem hann útskrifaðist með fyrstu einkunn í stjórnsýslu. Eftir útskrift vann hann fyrir ýmsa þingmenn bæði á Breska þinginu og Evrópuþinginu í Brussel. Hann hefur skrifað fjórar bækur í samstarfi við aðra um opinber útgjöld: The Bumper Book of Government Waste (Harriman House, 2006); The Bumper Book of Government Waste (Harriman House, 2008); The Great European Rip-Off ; How the Corrupt, Wasteful EU is Taking Control of Our Lives (Random House, 2009) og Fleeced! (Constable, 2009). Hann var kosinn Fellow of the Royal Society of Arts í júní 2007 og situr í ráðgjafanefnd fyrir The New Culture Forum.

Matthew kom á fót Samtökum Skattgreiðenda 2004 (TaxPayers’ Alliance). TPA eru óháð grasrótarsamtök sem berjast fyrir lægri sköttum og betri nýtingu skattpenings. TPA eru talin áhrifamesti þrýstihópur í Bretlandi og hefur, samkvæmt The Guardian, meira en 65,000 fylgismenn, 15 kynningarfulltrúa í fullu starfi og hafa náð að skapa sér mikinn sýnileika í fjölmiðlum. Matthew starfaði sem framkvæmdastjóri samtakanna frá upphafi þar til í júlí 2012.

Matthew stofnaði Big Brother Watch árið 2009. Samtökin berjast fyrir borgaralegum réttindum og persónufrelsi einstaklinga. BBW er nú leiðandi rödd í þeirri umræðu vegna rannsókna sinna á þessu sviði og skeleggrar baráttu. Hann var fenginn til að stýra baráttu samtakanna NO to AV gegn breytingum á kosningalöggjöfinni vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi 2011. Fóru leikar þannig að breytingunni var hafnað með afgerandi mun (67.9% gegn 32.1%). Hafði einn álitsgjafi á orði: „þessi kosningabarátta leggur grunn að nýju módeli fyrir framtíðina. Elliott leiddi hjá sér umræðu álitsgjafanna og keyrði kosningabaráttuna á rödd fólksins en ekki stórborgarelítunnar.“

Matthew er eftirsóttur sem pólitískur strategisti og hefur ferðast víða í slíkum erindagjörðum, m.a. til Hvíta Rússlands, Georgíu, Ghana og Serbíu. Hann er stjórnarmaður í Wess Digital auk þess að vera framkvæmdastjóri fyrir Business for Britain. En BfB eru samtök lobbyista sem vinna fyrir hönd breskra viðskiptajöfra sem vilja ná betri árangri í samningum sínum við Evrópusambandið.

BBC hefur kynnt Matthew Elliott sem „einn af áhrifamestu lobbyistum í Westminster“  og Tim Montgomerie hjá ConservativeHome telur Matthew „hugsanlega áhrifamesta pólitíska kosningastjórann sem fram hefur komið meðal núlifandi kynslóða í Bretlandi.“ Árið 2010 var hann á lista Total Politics sem einn af topp 25 pólitískum áhrifamönnum í Bretlandi.

lesa áfram

Samtökin auglýsa fyrir komandi kosningar

Nú fyrir kosningar hafa Samtök skattgreiðenda safnað fé til að vekja athygli á baráttu sinni fyrir lægri sköttun, betri ráðstöfun skattfjár og mikilvægi þess að skuldir hins opinbera verði greiddar niður.

Stuðningsaðilar hafa brugðist vel við og næstu tíu dögum verður auglýst í blöðum, vefmiðlum og í útvarpi.

Kjósendur þurfa að veita flokkunum aðhald og snúa umræðunni frá óraunhæfum yfirboðum til raunhæfra aðgerða til að auka hagvöxt, fjölga störfum í gegnum auknar fjárfestingar og til breyttrar forgangsröðunar í útgjöldum hins opinbera. Og breytingar á skattkerfinu eru forsenda aukinnar verðmætasköpunar.

 

lesa áfram

efst