Atvinnurekendur gegn atvinnufrelsi

Enn einu sinni er það að koma í ljós hversu skammsýnir atvinnurekendur eru þegar kemur að hagsmunum þeirra sjálfra. Vilhjálmur Árnason og fleiri þingmenn hafa lagt fram frumvarp til laga sem leggur niður einkasölu ÁTVR á áfengi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að heimilt verði að selja áfengi í t.d. matvöruverslunum með ákveðnum skilyrðum og stuðla þannig að auknu frelsi í verslun, betra aðgengi neytenda að vörunni, og ýmsum öðrum jákvæðum hliðarverkunum sem vel eru tíundaðir í greinargerð með frumvarpinu.

Borist hafa nokkrar umsagnir um frumvarpið og eins og búast má við þegar rætt er um áfengi mótmæla Landlæknir, Barnarverndarstofa, IOGT o.fl. þessari breytingu og þá á grundvelli aukins aðgengis sem allir fullyrða að muni auka neysluna. Rannsóknir sem slíkar fullyrðingar styðja eru þó ekki tíundaðar til stuðnings. Og aldrei er á því tæpt að áfengi er auðvitað flestum gleðigjafi, meðan öðrum verður hált á svellinu.

Það er sérkennilegra að umsögn Félags atvinnurekenda (áður FÍS) er einnig neikvæð og tekur aðeins mið af skammtímahagsmunum þröngs hóps innan þess félags sem flytur inn áfengi og líkar vel náðarfaðmur ríkisins í þessum efnum, enda gott að sitja að kjötkötlunum. En sér ekki meirihluti félagsmanna þá miklu hagsmuni sem fólgnir eru í að koma ríkinu úr þessari verslun sem annarri? Eða hvers vegna ekki aftur Viðtækjaverslun ríkisins? Þessi eru lokaorð umsagnarinnar:

„Félagið leggur því ekki til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt, heldur að málið verði tekið upp að nýju í heild og horft til mun fleiri þátta en þegar þetta frumvarp var samið. Þá er þess farið á leit að  sú endurskoðun verði unnin í samráði meðal annars við innflytjendur og framleiðendur áfengis, atvinnufyrirtæki sem eiga mikilvægra hagsmuna að gæta að ekki séu gerðar vanhugsaðar breytingar  á starfsumhverfi þeirra. Það er hins vegar ljóst að til staðar er ómarkvisst og gerræðislegt bann við áfengisauglýsingum sem vert er að nema úr gildi nú þegar.”

Dapurt að sjá atvinnurekendasamtök berjast gegn auknu atvinnufrelsi. Hvernig á að taka mark á kröfum slíkra samtaka um frelsi á öðrum sviðum marktækar? Í þessu máli eiga hagsmunir almennings, neytenda, að ganga fyrir, og um leið hagsmunir atvinnurekenda – frelsi leiðir til jákvæðrar niðurstöðu til lengri tíma litið. Að einhverjir tilteknir framleiðendur eða innflytjendur muni þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum skiptir hér engu máli.

Hér má lesa umsögn Samtaka skattgreiðenda um frumvarpið.

lesa áfram

Regluverk má ekki hamla nýsköpun

Í frétt í Morgunblaðinu 1. ágúst sl. er fjallað um áhyggjur leigubílstjóra vegna þess sem þeir kalla „skutlsíður” á netinu. Þar mun vera að um að ræða einhvers konar síður þar sem einstaklingar bjóðast til, gegn gjaldi, að flytja fólk á milli staða.

Frétt Morgunblaðsins – nýtt frumvarp í smíðum

Ekki skal sagt til um það hér, hvort um sé að ræða löglega eða ólöglega starfsemi, en um er ræða svipaða þróun og átt hefur sér stað í útleigu herbergja og íbúða, til ferðamanna. Þetta er angi af jákvæðri alþjóðlegri þróun þar sem tæknin er að gera einstaklingum og litlum fyrirtækjum mögulegt að keppa við stórfyrirtæki og „gömlu” viðskiptamódelin.

Einstaklingar og fjölskyldur taka sig til og reyna að nýta betur fjárfestingu sína í farartækjum og húsnæði með því að leigja öðrum afnot, tímabundið, af eignum sínum. Og hvað er annað en gott um að það segja?

Með nútímatækni (netinu, tölvum og síðast en ekki síst, snjallsímum) hefur tekist að minnka stórlega kostnað við að koma á viðskiptasambandi milli einstaklinga og fyrirtækja um allan heim. Síður á borð við airbnb.com og uber.com gera fólki mögulegt að leigja húsnæði og komast á milli staða með ódýrari og einfaldari hætti en áður var. Og  það er mikilvægt að stjórnvöld hamli ekki þessari jákvæðu þróun.

Samgöngustofa segir nú nýtt frumvarp í smíðum sem taki á svokölluðum „skutlsíðum”. Vonandi er að á þeim sé „tekið” með raunverulega hagsmuni neytenda í huga, ekki hagsmunum þeirra sem fyrir eru á markaði eða þeirra sem vonast til að komast inn. Eða hvers vegna þarf regluverk að taka til skutlþjónustu hótela, bifreiðaverkstæða o.s.frv. að öðru leyti en því að krefjast þess að ökumaður sé með bílpróf og faratækið að fullu tryggt? Sama á við um mikið af þeirri þjónustu sem einstaklingar bjóða hvorum öðrum á netinu – regluverk þarf ekki til, aðeins almennar algildar reglur.

R Street, bandarísk hugveita, hefur sett upp 5 meginreglur sem styðjast þarf við þegar setja á starfsemi sem þessari regluverk. Í stuttu máli þá eru þessar meginreglur:

  1. Fara varlega í allt regluverk – stíga létt til jarðar
  2. Nota tryggingar til að stýra, frekar en lög og regluverk
  3. Minnka áherslu á leyfisveitingar
  4. Leyfa markaðnum sjálfum að leita jafnvægis
  5. Gæta hlutleysis gagnvart mismunandi viðskiptafyrirkomulagi

Athugun R Street má lesa í heild hér. Vonandi er að Samgöngustofa hafi reglur sem þessar í huga þegar nýtt frumvarp sem tekur til fólksflutninga er í smíðum og létti á þeim reglum sem í dag gilda þar um, neytendum til hagsbóta.

 

lesa áfram

15.000 glasamottum dreift á veitingahús

Samtök skattgreiðenda hafa boðað til blaðamannafundar þar sem vakin verður athygli á átaki sem hefst þann 1. mars og í fréttatilkynningunni sagði m.a.:

„Um 15.000 glasamottum verður dreift á veitinga- og skemmtistaði í Reykjavík og nágrenni og á nokkrum stöðum úti á landi. Glasamotturnar vekja athygli á hárri skattlagningu hins opinbera á bjór. Þá verður þess einnig minnst að 25 ár eru liðin frá afnámi banns við sölu bjórs á Íslandi.

Með þessu átaki er ekki aðeins ætlunin að vekja athygli á þeirri staðreynd að ríkið tekur til sín að meðaltali 75% af smásöluverði bjórs sem seldur er í verslunum ÁTVR og í kringum 50% af smásöluverði á veitingahúsum. Markmiðið er líka að vekja athygli á tilraun hins opinbera til að stjórna neyslu og lífsstíl fólks með skattlagningu, regluverki, innflutnings- höftum o.s.frv. Stjórnmálamenn, embættismenn og sérfræðingar á vegum hins opinbera geta ekki metið hvað einstaklingnum er fyrir bestu hverju sinni og þaðan af síður hvað veitir honum ánægju og lífsfyllingu.

Samtök skattgreiðenda opna sérstaka Facebook síðu um herferðina, þá verður sérstök umfjöllun á heimsíðunni skattgreidendur.is og ný undirsíða þar sem hægt er að senda þingmönnum ósk um lækkun á áfengisgjaldi af bjór og minni afskiptum af neyslu og lífsstíl fólks; www.bjormottan.is. Á Twitter má fylgjast með fréttum af gangi mála undir @bjormottan og er fólk hvatt til að taka þátt í umræðu á netinu undir #bjormottan.”

Sjá einnig upplýsingar á síðu átaksins.

lesa áfram

Bannað að byggja ódýrt og smátt

Um fátt er meira fjallað þessa dagana en skort á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega er aðkallandi þörf fyrir byggingu lítilla íbúða til útleigu eða sölu fyrir yngra fólk. En vandinn er sá að slíkar íbúðir er bannað að byggja. Byggingarreglugerðin beinlínis fyrirskrifar rýmisstærðir og kostnað við margvíslega frágang, sem lítið sem ekkert hefur með öryggi að gera, en hækkar verulega verð íbúðarhúsnæðis. Hér má sjá grein í Viðskiptablaðinu um það hvers vegna ekki er hægt að byggja IKEA íbúðir á Íslandi.

Á sama tíma hafa yfirvöld í Reykavík ákveðið að fyrst og fremst skuli byggt á dýrustu lóðum á Íslandi, í eldri hluta Reykjavíkur, og þar með hækkar íbúðaverðið enn frekar.

Engu er líkara en að kynslóð sem fyrir löngu hefur komið undir sig fótunum vilji leggja næstu kynslóðum fjötur um fót við að komast á sama stað í lífinu. Og í engu er tekið tillit til þess að yngri kynslóðin hefur ekki sömu gildi og sú eldri. Nú eignast fólk börn síðar á ævinni, eldhúsið er ekki lengur íverustaður fjölskyldunnar með sama hætti og áður var. Og yngra fólk veita varla hvað Ríkissjónvarpið er, þaðan af síður að það hangi í stofunni til að horfa á dagskrá þess.

Hvers vegna má ekki byggja upp ódýrar íbúðir fyrir þá sem þess óska. Þá sem vilja e.t.v. ekki eignast húsnæðið, en eru tilbúnir til að leigja 30 – 50 m2 miðsvæðis á Reykjavíkursvæðinu? Algild hönnun er einn þáttur sem veruleg áhrif hefur á kostnað bygginga. Ekki er það hreyfihömluðum eða fötluðum til bóta að draga úr möguleikum á að fólk geti leigt eða eignast ódýrt húsnæði, vegna kröfu um svokallaða algilda hönnun. Eðlilegast er að haldið verði í eldri kröfur hvað þetta varðar.

Og hvers vegna er það embættismanna að ákvarða með reglugerða að: „Innan íbúðar sem er 55 m2 að stærð eða stærri, skal minnst vera eitt svefnherbergi, ekki minna en 14 m2, auk stofu, ekki minni en 18 m2″? Eða þessar gullvægu ákvarðanir sem hópur embættismanna hefur örugglega legið yfir í lengri tíma: „Þegar eldhús íbúðar er sameinað stofu er heimilt að samnýta borðkrók.” og „Í íbúðum minni en 55 m2 þarf ekki að gera ráð fyrir rými fyrir uppþvottavél.” Og einnig: „Aðkoma að snyrtingu eða baðherbergi íbúðar skal ekki vera beint úr stofu, eldhúsi eða borðstofu, nema í íbúðum sem eru 55 m2 eða minni, né frá svefnherbergi, nema annað baðherbergi eða snyrting sé í íbúðinni.” Og jafnvel svalirnar á íbúðinni þinni eru mál embættismannanna: „Veggsvalir bygginga skulu vera a.m.k. 4,0 m2 að stærð og ekki mjórri en 1,6 m.” Lengi hefur líklega verið rifist um hvort þarna ætti að standa 1,6 eða 1,7 m. Byggingarreglugerðin verður seint kölluð skemmtilestur en ber hins vegar vitni um hversu forsjárhyggjan er komin út í fullkomnar öfgar.

Næsta skref hlýtur að vera að aðeins Mannvirkjastofnun verði heimilt að hanna íbúðir, svo smásmyglisleg er nýja byggingarreglugerðin.

Svo lengi sem íbúðarhúsnæði uppfyllir kröfur um öryggiskröfur verður ekki séð að það eigi að vera hins opinbera að ákvarða stærð eða gerð íbúðarhúsnæðis. Ekki verður séð að fyrirskrifaðar rýmisstærðir eða afskipti af fyrirkomulagi íbúða hafi nokkuð með neytendavernd eða öryggi að gera.

Þá hafa afskipti hins opinbera af lánasamningum, ábyrgðum o.fl. valdið því að erfiðara er en áður fyrir ungt fólk að fá lánað fyrir fyrstu fasteignakaupum. Og verði verðtrygging lána jafnvel bönnuð verður þeim gert enn erfiðara um vik enda ljóst að greiðslubyrðin þyngist þá verulega fyrstu (og oft erfiðustu) árin.

Það er eins og oftar þegar kemur að afskiptum hins opinbera af frjálsum samningum fólks, eða það sem ætlað er sem neytendavernd kemur beint í bakið á þeim sem vernda átti.

 

lesa áfram

Hefur FME aldrei rangt fyrir sér?

Það er full ástæða til að koma upp sérstöku eftir með eftirlitsstofnunum. Á Eyjunni birtist þetta blogg eftir Skafta Harðarson sem vekur athygli á misbeitingu valds Fjármálaeftirlitsins undir fyrirsögninni Vald spillir og gerræðisvald gerspillir:

“Í bæði Viðskiptablaðinu og viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 21. mars 2013 má lesa umfjöllun um mál Ingólfs Guðmundssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Fjármálaeftirlitið vék honum úr starfi haustið 2010 og taldi hann vanhæfan.

En í málaferlum sem fylgdu í kjölfarið dæmdi Héraðsdómur Ingólfi í vil, og Hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðni FME. Þessu til viðbótar hefur umboðsmaður Alþingis úrskurðað að FME hafi brotið á Ingólfi.

En FME lætur sér ekki segjast og Ingólfur Guðmundsson hefur ekki verið beðinn afsökunar af hendi FME, hvað þá boðnar miskabætur. Ingólfur hyggst nú fara í skaðabótamál við FME.

Mál Ingólfs sýnir að opinberir starfsmenn eru auðvitað hvorki betri né verri en annað fólk, ekki nákvæmari, heiðarlegri eða betri en gengur og gerist. En þá skortir aðhald og sæta engu eftirliti sjálfir. Og vald spillir og gerræðisvald gerspillir eins og Acton lávarður orðaði það. Stofnanir með of mikil völd eru engum til góða. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri oftrú sem samtíminn hefur af opinberum eftirlitsrekstri, þrátt fyrir að reynslan sýni allt annað. Eftirlitsstofnanir misbeita valdi iðulega og eru tregar til að viðurkenna mistök og reynast á stundum ekki koma að nokkru gagni þegar á reynir og mestu máli skiptir.

Og hver á að sinna eftirliti með eftirlitsmönnunum? Enn einn umboðsmaðurinn?”

lesa áfram

Ögmundarstofa

Lagt verður fram frumvarp á yfirstandandi þingi fyrir tilstilli Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um veðmálastarfsemi á Íslandi. Ætlunin er að koma á fót sérstakri stofnun, Happdrættisstofu, og verður hlutverk hennar m.a. að stemma stigu við fjárhættuspili á netingu, hafa umsjón með leyfisveitingum fyrir happdrættum, sinna eftirliti o.s.frv. Eitthvað sem ætla mætti að tæki eins og 1 – 2 tíma á dag fyrir embættismann í ráðuneytinu. En nú skal sett upp heil „stofa” til að sinna þessu á kostnað neytenda.

Af þessu tilefni skrifaði Arnar Sigurðsson, fjárfestir, grein í Morguinblaðið 13. desember 2012, er ástæða til að birta hana á þessum vettvangi, með leyfi höfundar:

„Oscar Wilde sagði eitt sinn að hann gæti staðist allt nema freistingar. Fyrir stjórnlynda stjórnmálamenn á borð við Ögmund Jónasson er sömuleiðis fátt meira freistandi en gott tækifæri til að stjórna freistingum annarra enda eru stjórnlyndir að öllu jöfnu ófærir um að hafa stjórn á eigin ofstjórnunaráráttu.

Þó að Ögmundur Jónasson sé þekktur fyrir flest annað en aðdáun sína á frelsi einstaklingsins til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigið líf, er óhætt að fullyrða að stjórnlyndisæði ráðherrans og ofstækisflokks hans, VG, hafi náð nýjum hæðum með lagafrumvarpi um svokallaða „Happdrættisstofu“ sem líklega væri nær að kenna við stjórnlyndisfíkilinn og kalla Ögmundarstofu.

Fjárhættuspil þar sem veðjað er á móti hugbúnaði sem forritaður er til þess að bera sigur af hólmi má segja að sé ígildi skattlagningar á heimsku. Því má segja að tilvonandi „Happdrættisstofa“ Ögmundar sé tilraun til þess að vinna á heimsku með stjórnvaldi. Eins og frumvarp Ólínu Þorvarðar um niðurgreiðslu á galdralækningum sýnir, er fátt svo heimskt að stjórnlyndir sjái ekki tækifæri til að sólunda almannafé í opinberar „lausnir“, svo dæmi sé tekið af handahófi. Líkurnar á að mælanlegur árangur verði af happdrættisstofu Ögmundar eru reyndar slíkar að líklega væri vænlegra að niðurgreiða heimsku spilafíkla beint þannig að þeir verði ekki fyrir fjárhagstjóni frekar en að ráðast í stofnun og rekstur heillar stofnunar. Hugmyndin að Happdrættisstofu er því heimskari en sú heimska sem henni er ætlað að fyrirbyggja.

Til einföldunar má skipta fjárhættuspili þjóðarinnar í tvennt. Annarsvegar innlenda spilakassa og happdrættismiða sem hver sem er getur keypt, börn jafnt sem fullorðnir, andlega vanheilir sem heilbrigðir. Þá starfsemi telur Ögmundur að „njóti virðingar og sé samfélaginu mikilvæg“. Hinsvegar eru erlendar veðmálasíður sem samkvæmt Ögmundi eru upp til hópa reknar af alþjóðlegum glæpahringjum sem af einhverjum ástæðum takmarka þó aðgang við þá sem hafa greiðslukort og náð hafa 18 ára aldri. Að stöðva hið síðarnefnda er að mati Ögmundar hvorki meira né minna en „brennandi“ málefni og það þó að um 99% þjóðarinnar stundi alls ekki neins konar netspilun. Ögmundur telur erlendar veðmálasíður hina mestu vá en engu að síður „…nauðsynlegt að fólki standi til boða sambærileg spil á vegum trúverðugra íslenskra fyrirtækja“. Engu skiptir þó að íslenskir veðbankar bjóði mun óhagstæðari þjónustu, þ.e. verri stuðla í veðmálum heldur en erlendir keppinautar. Hér er því ámóta virðing borin fyrir hagsmunum neytenda eins og t.d. með innflutningshöftum á landbúnaðarvörum.

Arnar Sigurðsson, mynd úr Viðskiptablaðinu

Ögmundur ætlar að „koma í veg“ fyrir eitthvað sem hann flokkar sem „ólöglega netspilun á erlendum sem innlendum vefsíðum“. Til að leysa slíkt er Ögmundur trúr rótum sínum og horfir til þess hvernig sósíalísk ríki á borð við Kúbu, Kína og Norður-Kóreu leysa slík mál með ritskoðun á netinu og skorðum við notkun greiðslukorta. Ekki fylgir þó með frumvarpinu ítarleg útflærsla, t.d. um hvernig loka eigi fyrir notkun erlendra greiðslukorta á erlendum síðum, hvernig hægt verði að stöðva notkun íslenskra greiðslukorta ef korthafi ferðast erlendis, hvort tengingar við greiðslumiðlunarkerfi á borð við PayPal, sem aldrei mun beygja sig fyrir meinlokuhugmyndum Ögmundar, verði bannaðar, nú eða hvort úlendingum á Íslandi verði meinaður aðgangur að erlendum síðum sem Ögmundi eru ekki þóknanlegar.

Veruleikafirring Ögmundar er reyndar slík að í greinargerð með frumvarpinu er beinlínis viðurkennt að: „Enginn vafi er á því að greiðslumiðlunarbann telst hindrun á þjónustufrelsi í skilningi Evrópuréttar.“ Að viðurkenna lögbrot í greinargerð með lagafrumvarpi hlýtur að vera nýlunda hér á landi og verðugt rannsóknarverkefni fyrir svokallaða stjórnsýslufræðinga.

Fyrir flest hófsemdarfólk eru veðmál eitthvað sem við viljum sem minnst vita af og allir hafa heyrt reynslusögur af fíklum sem ánetjast slíkri iðju. Því er viðbúið að flestum þyki einfaldlega bara þægilegt að losna við vandamálið með lagaboði. Því er til að svara að sögulega hverfa þjóðir sjaldnast í einni svipan frá frelsi til alræðis heldur er einstaklingsfrelsið étið einn bita í einu, ávallt með göfugum tilgangi hverju sinni. Fjárhættuspil er hinsvegar löstur en ekki glæpur.”

lesa áfram

Kostar ný byggingarreglugerð íbúðakaupendur milljarða?

Fáir efast um að einhverjar reglur þurfi að setja um byggingar húsa, s.s. um lágmarks burðarþol, eldvarnir o.s.frv. Þetta er öðru fremur gert í gegnum byggingarreglugerð, sem er á ábyrgð Mannvirkjastofnunar, en stofnunin heyrir nú undir Umhverfisráðuneytið. Nú um áramótin tekur gildi ný byggingarreglugerð sem hljótt hefur farið nema innan þröngra faghópa. Ljóst er að með setningu nýju reglugerðarinnar mun byggingakostnaður hækka verulega. Samhliða því er frelsi neytenda til að velja sér húsnæði eftir eigin höfði hvað varðar fyrirkomulag og útlit stórlega skert.

En forstjóri Mannvirkjastofnunar, Björn Karlsson, sá ástæðu til að fagna þessar nýju byggingarreglugerð í grein í Fréttablaðinu 15. mars á þessu ári, en formaður Samtaka skattgreiðenda, svaraði Birni með grein í sama blaði þann 21. mars sl., sem lauk á þessu orðum:

„Byggingarreglugerðin hin nýja mun seinka endurreisn nýbyggingamarkaðarins og gera þeim erfiðara fyrir sem huga að fyrstu íbúðakaupum eða vilja stækka við sig. Engir gæta hagsmuna íbúðakaupenda. Ekkert heyrist frá verklýðsfélögunum, opinberum talsmönnum neytenda, Neytendastofu eða Neytendasamtökunum. Enda er þau hluti af kerfinu, ekki gagnrýnendur þess.”

Í framhaldi af þessum greinaskrifum skrifuðu Samtökin Mannvirkjastofnun og vildu fá að sjá hversu mætti búast við að kostnaður við nýbyggingar ykist við setningu reglugerðarinnar. Hér að neðan má sjá bæði bréf Samtakanna og svar Mannvirkjastofnunar. Í ljós kemur að stofnunin hefur enga tilraun gert til einföldustu útreikninga á þessu sviði. En slíkt dæmi hefur hins vegar framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Hannarr, Sigurður Ingólfsson,  komið með í grein í Morgunblaðinu 19. júlí sl. og birt var með leyfi höfundar hér á heimasíðu Samtakanna.

Loks vekur athygli að í bréfi Mannvirkjastofnunar er sagt að leitað hafi verið umsagnar Neytendasamtakanna. Þessu hafnar Jóhannes Gunnarsson í bréfi til Samtaka skattgreiðenda þann 28. ágúst sl. og segir:

„Neytendasamtökin tóku ekki þátt í samningu þessarar reglugerðar. Við könnumst heldur ekki við að hafa fengið hana til umsagnar.”

Lesið bréf Samtakanna og svar Mannvirkjastofnunar með því að smella á tenglana.

 

 

lesa áfram

1 milljarður á ári, í eigu húsbyggjenda, út um gluggann

Með góðfúslegu leyfi höfundar, Sigurðar Ingólfssonar, framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar Hannarr ehf., birtum við hér grein hans um einn þátt nýju byggingareglugerðarinnar sem mun leggja miklar birgðar á húsbyggjendur. Hvorki öryggis-, gæða- eða umhverfissjónarmið geta átt við um þessar auknu kröfur um einangrun, enda hús á Íslandi hituð upp með endurnýjanlegri orku. Og ekki er það neytendavernd. Kostnaðurinn við þessar auknu kröfur er langt umfram þann sparnað sem þær gefa af sér, jafnvel til langs tíma litið. Eðlileg krafa er að gildistöku þessarar nýju reglugerðar verði frestað þar til frekari almenn umræða hefur farið fram um einstaka þætti hennar.

En grein Sigurðar, upphaflega birt í Morgunblaðinu 19. júlí 2012 hljóðar svo:

„Vegna aðkomu minnar að ýmsum útreikningum sem snerta byggingarframkvæmdir finnst mér rétt að vekja athygli á grein 13.3.2 í nýrri byggingarreglugerð, en þar er fjallað um „hámark U-gildis – nýrra mannvirkja og viðbygginga”. Þær kröfur sem koma fram í þessari grein, kalla meðal annars á aukna einangrun útveggja, þaka og gólfa í nýbyggingum, um u.þ.b. 50 mm.

Hvað þýðir þetta í auknum kostnaði fyrir húsbyggjendur?

Ef húsbyggjandi vill byggja sér einbýlishús getur hann reiknað með að útveggjaflötur sé álíka og brúttóflötur hússins og ef húsið er á einni hæð þá er gólf- og þakflötur álíka stór og brúttóflötur hússins, hvor fyrir sig. Aukakostnaður við að byggja 200 m² hús á einni hæð vegna þessara auknu einangrunar er um 1 milljón króna.

En þetta hefur fleira í för með sér

Húsið hefur annaðhvort bólgnað út um þessa 5 cm í allar áttir, eða innra rými þess skroppið saman sem þessu nemur. Til að halda sama nettófleti hússins þarf þannig að stækka það um uþ.b. 3 m², til að halda sama rými innanhúss. Kostnaður vegna þessarar stækkunar er u.þ.b. 1 milljón króna og eykst því kostnaður við húsið um alls 2 milljónir króna til að fá sama nýtanlega rýmið, eða sem svarar til rúmlega 3% af byggingarkostnaði.

Og hvað sparar þetta húsbyggjandanum?

Reiknað er með að hús sem hafa verið byggð samkvæmt síðustu byggingarreglugerð noti um 0,8-1,0 rúmmetra af heitu vatni á ári til upphitunar á hvern rúmmetra húss (ekki neysluvatn) og þar af fari umtalsverður hluti í að hita lotfskipti hússins. 200 fermetra hús er um 660 rúmmetrar og sé reiknað með verði Orkuveitunnar á heitu vatni, sem er í dag um 125 kr/m{+3} (OR 119,91), er kostnaður við upphitun hússins fyrir breytingu u.þ.b. 83.000 kr. á ári. Aukin einangrun skilar húsbyggjandanum á bilinu 15-20% sparnaði, eftir því hversu mikið tapast af hita hússins með loftskiptum. Það gerir 12-17.000 í krónur í sparnað á ári.

Hafi húsbyggjandinn fengið þennan viðbótarpening sem aukin einangrun kostar, að láni, þarf hann að greiða vexti af honum sem eru 4,1% auk verðtryggingar í dag, eða um 82.000 kr. á ári, og lánið stendur þá áfram í sömu upphæð, verðtryggðri. Sé litið á þennan vaxtakostnað sem hluta af upphitunarkostanði hússins og dreginn frá sparnaður í upphitun þess vegna aukinnar einangrunar hækkar þessi aukna krafa um einangrun upphitunarkostnað þessa húsbyggjanda um allt að helming, í stað þess að spara honum pening. Hér virðist eitthvað hafa gleymst í útreikningunum, eða að þeir hafi e.t.v. aldrei verið gerðir.

Útkoman er sú sama í öðrum gerðum af húsum, að öðru leyti en því að tölur þar eru oftast lægri, bæði kostnaður og sparnaður, en hlutfallið er það sama og því um kostnað að ræða en ekki sparnað í öllum tilvikum. Húsbyggjandinn greiðir þennan aukakostnað og fær hann aldrei til baka í lækkuðum upphitunarkostnaði. Því má líta á þetta sem skatt á húsbyggjandann.

Skattur þessi er samtals um það bil 1 milljarður króna á ári á landinu öllu sé miðað við eðlilegan fjölda nýbygginga á hverjum tíma. Fyrir þann pening mætti t.d. byggja 16 einbýlishús af ofangreindri stærð eða 43 íbúðir sem væru um 100 m² að stærð.

Hver tekur svona ákvarðanir og hversu löglegar eru þær?

Hverjir taka svona ákvaðranir og á hvaða forsendum? Gleymdist að reikna dæmið til enda? Er e.t.v. verið að taka upp erlenda staðla án skoðunar á áhrifum þeirra hér? Er eðlilegt og heimilt að leggja þennan skatt á húsbyggjendur? Er of seint að leiðrétta þessa reglugerð?

Hér virðast vera gerðar meiri kröfur í reglugerð en er að finna í mannvirkjalögum nr. 160/2010, en þar segir um hitaeinangrun húsa:

„6. Orkusparnaður og hitaeinangrun.Hita-, kæli- og loftræsingarkerfi bygginga og mannvirkja skulu hönnuð og byggð á þann hátt að nauðsynleg orkunotkun sé sem minnst með tilliti til veðurfars á staðnum en án þess að til óþæginda sé fyrir íbúana.”

Það skal tekið fram að þessi niðurstaða var kynnt fyrir Mannvirkjastofnun, Orkustofnun og Orkuveitu Reykjavíkur fyrir nokkru og hafa þessir aðilar ekki gert athugasemdir við þessa niðurstöðu.”

lesa áfram

Sjálfshól embættismanns

Eftirfarandi grein eftir Skafta Harðarson birtist í Fréttablaðinu 21. mars 2012 í tilefni af grein eftir Björn Karlsson, forstjóra Mannvirkjastofnunar. Björn skrifaði grein í tilefni af útkomu nýrrar byggingareglugerðar sem gengur í veigamiklum atriðum gegn hagsmunum neytenda bæði hvað varðar valfrelsi og kostnað.

Sumir telja sjálfshól betra en ekkert hól. En oftar en ekki er ástæða til þess að hrósið lætur á sér standa.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, telur ástæðu til að skrifa grein í Fréttablaðið þann 15. mars síðastliðinn og hrósar þar eigin stofnun og umhverfisráðuneytinu fyrir nýja byggingarreglugerð. Ekki vantar sjálfshólið; „almennt má segja að hún hafi fengið góðar og jákvæðar undirtektir, enda var leitast við að vanda til smíði hennar í hvívetna.” Þá getur Björn þess að samráð hafi verið haft við fjölda fólks með sérþekkingu á ýmsum sviðum og ólíka hagsmuni.

Í engu fjallar Björn hins vegar um það sem mestu máli skiptir. Hvað mun þessi ítarlega afskiptasemi stofnunar hans og umhverfisráðuneytisins kosta íbúðakaupendur? Hversu mikið munu til dæmis íbúðir hækka í verði eftir setningu nýju reglugerðarinnar? Hvaða áhrif hefur það að nú er óheimilt að byggja þriggja hæða íbúðarhús án lyftu? Hvað kostar sú krafa fyrir væntanlega íbúðakaupendur? Eða munu þriggja hæða fjölbýlishús hverfa af markaði? Líklegt er að það verði svar markaðarins – engin þriggja hæða íbúðarhús. Hvergi er að finna neina greiningu á kostnaðaráhrifum nýrra krafna eða fullnægjandi skýringar á því hvaða aðkallandi þörf er á frekari skilgreiningu á innra fyrirkomulagi íbúða.

Hvaða ástæða er til þess að opinberir embættismenn fyrirskrifi stærð svefnherbergja? Hvaða embættismaður komst að því að ekki skuli koma annað til greina en að svefnherbergi hjóna skuli vera a.m.k. 14 m² og baðið ekki minna en 5 m² nú eða 3ja metra gangur 3,9 m²? Hvaðan kemur embættismönnunum þessi dulvitra djúpa stærðarspeki? Og hér er aðeins getið minniháttar augljósra atriða sem hækka verulega verð íbúða fyrir kaupendur húsnæðis í framtíðinni.

Embættismaðurinn sjálfumglaði getur þess auðvitað hvergi hver kostnaður kaupenda verður vegna nýjustu krafna hans, en hrósar sér sérstaklega fyrir að hafa talað við mann og annan innan kerfisins um hvað okkur er fyrir bestu. Nýja byggingareglugerðin heggur í sama knérunn og flestar reglugerðir starfsfélaga hans innanlands sem utan hin síðari ár; takmarkar valfrelsi neytenda, ákveður hvað okkur er fyrir bestu og hækkar kostnaðinn af kaupum á þeirri vöru sem um er fjallað. Nú eða tekur vöruna af markaði. En í Orwellskri orðanotkun embættismanna er þetta auðvitað gert undir formerkjum „neytendaverndar”. Valfrelsi eru þau lífsgæði sem mestu máli skipta og á þau gæði er gengið.

Neytendur eru fullfærir um að hafa eigin skoðun á stærð og fyrirkomulagi herbergja í eigin húsnæði.

Engin ástæða er heldur til þess að krefjast þess að allt nýtt húsnæði uppfylli kröfur einstakra hópa íbúðakaupenda. Neytendur skipta um húsnæði eftir breytingum á fjölskyldustærð og fjölskylduhögum. Og ekkert er eðlilegra en að svo verði áfram. En til valfrelsisins má embættismaðurinn ekki hugsa. Enda hyrfi þá réttlæting starfa hans.

Byggingarreglugerðin hin nýja mun seinka endurreisn nýbyggingamarkaðarins og gera þeim erfiðara fyrir sem huga að fyrstu íbúðakaupum eða vilja stækka við sig. Engir gæta hagsmuna íbúðakaupenda. Ekkert heyrist frá verklýðsfélögunum, opinberum talsmönnum neytenda, Neytendastofu eða Neytendasamtökunum. Enda er þau hluti af kerfinu, ekki gagnrýnendur þess.

lesa áfram

efst